
Haukur Hauksson
Söngvarinn Haukur Hauksson var nokkuð áberandi í íslensku tónlistarlífi um nokkurra ára skeið undir lok níunda áratugar síðustu aldar og nokkuð fram á tíunda áratuginn en hann sendi þá m.a. frá sér sólóplötu og kom við sögu bæði í Eurovision undankeppninni og Landslaginu.
Haukur er fæddur 1963 og er bróðir Eiríks Haukssonar söngvara, ekki er að finna miklar upplýsingar um söngferil hans framan af en svo virðist sem hann hafi verið söngvari hljómsveitar sem bar heitið Belfigor á árunum 1984 og 85, og ári síðar einnig með hljómsveitinni Kveldúlfi.
Árið 1987 má segja að Haukur hafi orðið töluvert þekktur söngvari, hann söng þá með Stjórninni (hinni fyrstu) á Hótel Íslandi og um svipað leyti kom hann við sögu á plötu Sverris Stormskers – Örlög þar sem hann söng lagið Hvað get ég gert?, auk þess sem hann söng á plötunni Flass sem hafði að geyma lög Einars Oddssonar. Þetta sama ár kom svo út níu laga sólóplata Hauks sem bar titilinn …hvílík nótt en hún fór ekki hátt og líklega var þar um að kenna lélegri dreifingu en útgáfufyrirtækið Tony gaf plötuna út, Haukur samdi þar öll lög og texta.
Hann var næsta árið nokkuð viðloðandi Hótel Ísland, söng þar með nafnlausri danshljómsveit sem var eins konar húshljómsveit og svo með hljómsveitinni Stjörnuliðinu sem tók við af hinni sveitinni af því er virðist. Síðla það sama ár (1988) hóf hann svo að syngja með hljómsveitinni Sprakk sem starfaði allt til 1991.
Haukur varð svo á næstu árum nokkuð áberandi í Landslagskeppninni svokölluðu, hann átti texta við lagið Óþörf orð sem hann söng sjálfur í keppninni 1990 og svo söng hann tvö lög í sömu keppni árið 1992, Ég fer og Í ævintýraheimi en þau lög voru bæði eftir Þröst Þorbjörnsson. Haukur kom einnig við sögu í undankeppni Eurovision keppninnar snemma árs 1993 en þar söng hann lagið Í roki og regni.
Vorið 1992 gekk Haukur til liðs við hljómsveitina Af lífi og sál og starfaði með henni næstu tvö árin, sú sveit átti eitt lag á safnplötunni Blávatn: átak gegn áfengi (1993) en Haukur sendi svo frá sér í eigin nafni tvö lög á Lagasafns-safnplötum, lagið Spáð í spilin á Lagasafninu: Frumafl (1992) og Í roki og regni á Lagasafninu 4 (1993), lagið sem hann hafði einmitt sungið í undankeppni Eurovision. Árið 1993 söng hann einnig tvö lög með hljómsveitinni Dykk á safnplötunni Landvættarokk.
Eftir þessa nokkurra ára söngtörn hefur farið minna fyrir Hauki á tónlistarsviðinu, hann hefur eitthvað sungið raddir inn á plötur en virðist hafa lagt sönginn að mestu á hilluna.


