Helgi og hljóðfæraleikararnir (1987-)

Helgi og hljóðfæraleikararnir 1991

Eyfirska pönksveitin Helgi og hljóðfæraleikararnir eiga sér langa og merkilega sögu, og útgáfusögu reyndar einnig. Margt er á huldu um sögu þessarar neðanjarðarsveitar því heimildir um hana liggja á víð og dreif um lendur alnetsins og því erfitt að pússla saman einhvers konar heildarmynd af henni og einkum þegar kemur að mannskap sem komið hefur við sögu sveitarinnar. Útgáfusaga Helga og hljóðfæraleikaranna spannar um tvo tugi titla og það eitt og sér að safna þeim upplýsingum saman var ærið verk, hér er þó vonandi þrátt fyrir allt að finna nokkuð heildstæða mynd af sveitinni og plötum hennar en að öllum líkindum er sögu sveitarinnar hvergi nærri lokið.

Helgi og hljóðfæraleikararnir áttu sér nokkurn aðdraganda en í Hrafnagilsskóla í Eyjafirði varð til árið 1985 sveit sem bar nafnið Attach, sú sveit hafði að geyma þá Atla Má Rúnarsson trommuleikara, Brynjólf Brynjólfsson gítarleikara og Bergsvein Þórsson bassaleikara – þeir störfuðu líklega sem tríó og þegar fjórði meðlimurinn Helgi Þórsson söngvari (bróðir Bergsveins) bættist í hópinn var nafni sveitarinnar breytt í Múspellssyni. Ekki liggur fyrir hversu lengi þeir störfuðu undir því nafni en við frekari mannabreytingar var nafni sveitarinnar breytt í Helgi og hljóðfæraleikararnir – upplýsingar vantar um hverjar þessar mannabreytingar voru.

Helgi og hljóðfæraleikararnir störfuðu að því er virðist í kyrrþey framan af og er engar heimildir að finna um sveitina á milli 1987 og 1990 en haustið 1990 kom hún fram á tónleikum í Dynheimum á Akureyri og spilaði þar þjóðlegt og framsækið nýbylgjupönk sem hefur síðan verið einkenni sveitarinnar. Um þetta leyti í byrjun tíunda áratugarins var eins konar tónleikavakning í gangi fyrir norðan og nokkrar rokksveitir rottuðu sig saman og héldu tónleika víða um norðanvert landið, þannig lék sveitin á Akureyri, Sauðárkróki og á Laugum í Reykjadal svo dæmi séu nefnd.

Strax um þetta leyti höfðu línurnar að miklu leyti verið lagðar fyrir tónlistarstefnu sveitarinnar og spilaði þjóðlegur áhugi sveitarmanna (e.t.v. aðallega Helga söngvara) þar inn í en hann samdi flesta texta sveitarinnar á meðan sveitin í heild kom að lagasmíðunum. Þannig varð til eins konar rokkópera hjá þeim félögum sem hlaut nafnið Landnám og fjallaði um landnámsmanninn Þóri feita sem flýr til Íslands undan ofríki Haraldar hárfagra. Rokkóperan var hljóðrituð eftir því sem sagan segir á fjörutíu og fimm mínútum í svefnherbergi og svo gefin út á kassettu árið 1991. Aðeins voru framleidd þrjátíu eintök af henni og munu hafa verið til tvær eða þrjár útgáfur af coverinu, Landnám var svo endurútgefin árið 2000 á geisladiskaformi og eru til tvær útgáfur af því plötuhulstri einnig – það er því ljóst að þessar fyrstu útgáfur sveitarinnar hafa mikið söfnunargildi (reyndar eins og flestar síðari útgáfur hennar einnig því hún hefur aldrei gefið út í stóru upplagi). Landnám var enn og aftur endurútgefin árið 2022, þá voru gerð hundrað eintök á kassettum, þar af 33 árituð og tölusett. Sveitin var á þeim tíma kvartett þeirra Helga, Brynjólfs, Atla Más og Bergsveins.

Helgi og hljóðfæraleikararnir

Hljómsveitin hélt sínu striki þótt lítið færi fyrir henni á opinberum vettvangi, hún var að spila töluvert árið 1991 og um verslunarmannahelgina þá um sumarið var sveitin meðal þátttökusveita í hljómsveitakeppni í Húnaveri, svo virðist sem sveitin hafi þar verið fimm manna. Þar komust þeir félagar í þriggja sveita úrslit og unnu sér inn hljóðverstíma sem nýttir voru til að hljóðrita tvö lög (Litla stúlka / Manstu) sem komu reyndar ekki út fyrr en löngu síðar eða árið 2023 þegar þau voru gefin út á sjö tommu vínylplötu. Sveitin var nokkuð virk þetta sumar og haust og t.d. hélt hún sjálfstæða tónleika í Borgarbíói á Akureyri og lék einnig á stórtónleikum sem haldnir voru í KA-heimilinu þar sem GCD og Stjórnin komu einnig við sögu.

Helgi og hljóðfæraleikararnir voru ekki eins virkir næstu tvö árin ef marka má heimildir, sveitin lék eitthvað þó opinberlega og svo árið 1993 urðu þeir félagar aftur duglegri við tónleikahald enda leit þá dagsins ljós fyrsti geisladiskur sveitarinnar en hann bar nafn sveitarinnar. Sveitin hélt útgáfutónleika í 1929 á Akureyri en voru líka að spila með fleiri akureyskum hljómsveitum um þetta leyti, m.a. á stórum tónleikum sem haldnir voru milli jóla og nýárs í 1929, um þetta leyti hélt hljómsveitin líklega sína fyrstu jólatónleika sem hefð hefur verið síðan þá. Platan hafði verið hljóðrituð í stúdíó Samver á Akureyri, hún hlaut misjafnar móttökur poppskríbenta – á meðan hún fékk slaka dóma í Pressunni kaus Dagur á Akureyri hana eina af plötum ársins.

Eftir útgáfu plötunnar 1993 fór afar lítið fyrir Helga og hljóðfæraleikurunum um nokkurra ára skeið og líklega lá starfsemi sveitarinnar nánast alveg niðri í um fjögur til fimm ár. Það var svo veturinn 1997-98 sem hún lét á sér kræla á nýjan leik og í hönd fór tímabil sem sveitin var töluvert áberandi í spilamennsku og útgáfumálum. Hún var þá orðin sex manna og um sumarið 1998 hafði fjölgað enn í henni og innihélt þá sjö meðlimi, auk Helga, Brynjólfs, Atla og Bergsveins höfðu Hjálmar Stefán Brynjólfsson harmonikkuleikari (bróðir Brynjólfs), Gunnur Ýr Stefánsdóttir þverflautuleikari og Kristín Þóra Haraldsdóttir fiðluleikari bæst í hópinn. Sá mannskapur skipaði sveitina á nýrri átján laga plötu sem kom út um sumarið og bar titilinn Endanleg hamingja, platan var órafmögnuð og hafði verið tekin upp „live“ heima í stofu en á þessum tíma var talað um tvær útgáfur af sveitinni, annars vegar rafmagnaða útgáfan og svo sú órafmagnaða sem var klárlega sú sem lék á plötunni, sem var gefin út í 100 tölusettum eintökum sem seldust fljótlega upp. Reyndar eru heimildir um að einnig hafi verið gefin út sérstakt afbrigði af plötunni sem bar heitið „Óendanleg hamingja“ – upplýsingar um þá útgáfuna plötunnar liggja þó ekki fyrir eða með hvaða hætti hún var frábrugðin upprunalegu útgáfunni. Sveitin hóf í kjölfarið að leika töluvert á opinberum vettvangi, hélt útgáfutónleika í Deiglunni á Akureyri og lék svo heilmikið á tónleikum.

Fleiri breytingar urðu á hljómsveitinni, Kristín Þóra staldraði ekki lengi við og fór til Danmerkur í nám og var næsta plata sveitarinnar að nokkru leyti helguð henni því sú bar titilinn Bréf til Stínu og mun hafa verið eins konar „Sonatorrek“ sveitarinnar í anda Egils Skallagrímssonar. Sú plata kom út árið 1999 og þar komu þær Álfheiður Guðmundsdóttir þverflautuleikari, Katrín Harðardóttir klarinettuleikari og Ola Lotsberg fiðluleikari við sögu en ekki liggur ljóst fyrir hvort þær stöllur voru í hljómsveitinni eða voru þarna aðeins sem aukahljóðfæraleikarar – sveitin mun alltént hafa verið átta manna um það leyti.

Helgi og hljóðfæraleikararnir 1999

Vorið 1999 fór hljómsveitin í fyrsta sinn suður til Reykjavíkur til spilamennsku en sveitin lék þá í tvígang á Bíóbarnum og var þá auglýst undir nafninu Íslandsvinirnir Helgi og hljóðfæraleikararnir, í þeirri sömu ferð lék sveitin einnig á Skagaströnd og svo heilmikið um sumarið heima í Eyjafirðinum s.s. á Akureyri, Dalvík og víðar. Og hópurinn hélt sínu striki áfram, kom aftur suður til Reykjavíkur vorið 2000 og lék þá í Hinu húsinu ásamt Megasi og á Næsta bar í annarri suðurferð. Þá lék sveitin einnig m.a. á tvennum tónleikum á Akureyri og í Mývatnssveit ásamt fleirum undir yfirskriftinni Durgur 2000, og seldu þar m.a. jólakort til styrktar vondum tónlistarmönnum eins og það var orðað. Líklega lék sveitin hátt í tuttugu sinnum þetta árið sem er líklega með því mesta hjá henni, og þetta árið kom enn ein platan út – hún bar nafnið Launblót í 1000 ár og hafði að geyma sautján pönkþjóðlög.

Helgi og félagar héldu sínu striki árið 2001 og líklega hafði aftur fækkað í sveitinni eftir tímabil þar sem sveitin var æði fjölmenn. Þriggja laga smáskífa leit dagsins ljós um vorið en hún bar nafnið Græni fuglinn eftir einu laganna, tónleikar voru haldnir í tilefni af því í Íslandsbænum í Eyjafirði en sveitin var töluvert að leika á tónleikum á Akureyri og nágrenni og meðal annars á sínum árlegu jólatónleikum. Þarna hélt sveitin jafnframt í fyrsta sinn tískusýningu en hún átti eftir að gera það aftur í nokkur skipti síðar.

Hljómsveitin hafði á sínum tíma hljóðritað rokkóperuna Landnám og nú kom sveitin með beinum hætti að leikhússtarfi þegar hún tók þátt í uppfærslu Freyvangsleikhússins í Eyjafirði á leikritinu Halló Akureyri sem sýnt var í Freyvangi í nokkur skipti árið 2002, þá hélt sveitin einnig tónleika í bragga í Eyjafirðinum undir yfirskriftinni Rökkuróperan en þar var á ferð tónverk eftir hljómsveitina við texta Helga – verkið fjallar um fólk á súlustað og samskipti þeirr, ýmsir gestasöngvarar tóku lagið með sveitinni á þeim tónleikum og meðal þeirra má nefna Kristján Pétur Sigurðsson og Ernu Hrönn Ólafsdóttur. Hljómsveitin sendi jafnframt frá sér plötu um vorið, hún hét Til Afríku: Blúsar og barnagælur og var unnin afar hratt en um þrjár vikur munu hafa liðið frá því hugmyndin kom upp þar til platan leit dagsins ljós, sú skífa er eðli máli samkvæmt hrátt unnin en það þótti ekki óeðlilegt í hljóðversvinnu sveitarinnar.

Árið 2003 var með svipuðum hætti og árin á undan og fóru Helgi og hljóðfæraleikararnir víða um með tónleikahaldi – m.a. í Leikhúskjallaranum og Stúdentakjallaranum í Reykjavík þar sem þeir félagar áttu eftir að leika oftar, hitt er e.t.v. fréttnæmara að sveitin lék einnig í Sjallanum á Akureyri, reyndar ásamt Fræbbblunum og fleiri hljómsveitum. Sveitin hafði um nokkurt skeið verið að vinna efni sem hafði stöðugt verið frestað útgáfu á og aðrar plötur komið út í staðinn með lögum sem unnin höfðu verið mun hraðar. Þetta efni kom svo loksins út undir nafninu Týnda platan og rétt fyrir jólin 2003 kom út önnur – jólaplata undir nafninu Ég veit hvað þú gerðir um síðustu jól. Síðarnefnda platan ku vera nokkuð óhefðbundin fyrir jólaplötu að vera og um leið umdeild því þar voru „hefðbundin“ jólalög með textum sem búið var að snúa út úr s.s. Adam átti stóran bjór, Skreytum tréð í einum grænum, Alkar falla (Snjókorn falla) og þannig mætti áfram telja. Platan sem kom út í fjörutíu tölusettum eintökum mun t.a.m. hafa verið tekin fyrir í jólapredikun í Grundarkirkju í Eyjafirði þarna um jólin. Og um jólin mun sveitin jafnframt hafa sett upp söngleik í Deiglunni á Akureyri, sem var vel sóttur og þannig hélt hún áfram að tengja tónlist sína við leikhúsið.

Helgi og hljóðfæraleikararnir

Enn héldu Helgi og hljóðfæraleikararnir sig á sömu nótum, spiluðu mikið og gáfu mikið út. Árið 2004 kom platan Meira helvíti út en það var tíunda skífan sem sveitin sendi frá sér, sú plata mun hafa komið út með ferns konar mismunandi útfærslum á plötuumslaginu, mynd af blómum, hauskúpu, Jóni Sigurðssyni sjálfstæðishetju og Ingibjörgu Einarsdóttur eiginkonu Jóns – hún hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Þessi plata var svo endurútgefin árið 2022 – annars vegar á geisladisk í 200 eintökum og hins vegar á vínylplötuformi þar sem gul eða blá útfærsla á vínylnum var í boði (100 eintök komu út í hvorum lit). Sveitin var að spila töluvert sunnan heiða, á stöðum eins og Stúdentakjallaranum og Rósenberg-kjallaranum en einnig á heimaslóðum fyrir norðan.

Nokkurt lát varð nú á plötuútgáfu hjá Helga og hljóðfæraleikurunum næstu árin, sveitin hafði á árunum 1998 til 2004 sent frá sér ríflega eina plötu á ári en nú bar svo við að ekki kom út plata fyrr en 2007, í millitíðinni var sveitin þó síður en svo verkefnalaus og hún lék heilmikið á tónleikum bæði norðan heiða og sunnan, og meðal annars léku þeir félagar á Einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina og tónlistarhátíðinni AIM festival (Akureyri Interntaional Music festival), sveitin vakti jafnframt athygli fyrir tískusýningar sínar með eins konar miðaldafatnaði sem Helgi og eiginkona hans, Beate Stormo hönnuðu og saumuðu – jafnframt kom út tískublað þar sem hljómsveitin mun hafa setið fyrir á ljósmyndum. Jólatónleikar Helga og hljóðfæraleikaranna voru áfram fastur liður á tónleikadagskrá sveitarinnar og þá voru þeir einnig með lag í jólalagasamkeppni Rásar 2 fyrir jólin 2007. Sumarið á undan (2007) kom svo ellefta plata sveitarinnar út, Veislan á Grund – tólf laga plata, svo virðist sem sveitin sé þarna aftur orðin nokkuð fjölmenn eftir að fækkað hafði í henni um tíma en upplýsingar um skipan sveitarinnar er alltaf svolítið á reiki hverju sinni þótt kjarninn hafi yfirleitt alltaf verið sá sami.

Árið 2009 fór hljómsveitin aftur í samstarf við Freyvangsleikhúsið og nú var settur á svið rokksöngleikur undir nafninu Vínland, en hann mun að einhverju leyti að minnsta kosti vera byggður á Landnámi – rokkóperunni eftir Helga sem sveitin hafði sent frá sér á kassettu löngu fyrr. Vínland varð mun stærri sýning en ætlað var í upphafi og var síðan valin áhugaleiksýning ársins og sett á svið í Þjóðleikhúsinu þar sem hljómsveitin kom fram eins og í félagsheimilinu Freyvangi. Að sjálfsögðu voru herlegheitin svo gefin út á plötu en árið 2022 var hún svo einnig gefin út á Spotify með ýmsu aukaefni s.s. demóupptökum.

Helgi og hljóðfæraleikararnir voru nú orðnir fastur liður í tónleikadagskrá Græna hattsins á Akureyri og lék aftur fyrir gesti Halló Akureyri og AIM festival, og var sveitin aukinheldur valin til að leika á norrænni tónlistarhátíð í Norræna húsinu haustið 2009. Minna fór fyrir sveitinni árið 2010 þótt vissulega léki hún eitthvað á tónleikum en það voru þó aðallega fastir og árlegir liðir, og svo virðist sem sveitin hafi um það leyti aftur verið orðin kvintett.

Helgi og hljóðfæraleikararnir

Lengra varð nú á milli platna, Nakti apinn kom út árið 2011 – tuttugu laga plata sem hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og svo liðu fimm ár uns næsta plata leit dagsins ljós – Bæ hæli, sem kom út 2016. Jafnframt varð lengra milli tónleika sveitarinnar en það var helst að hún kæmi fram á Græna hattinum, í raun komu þeir félagar fram í örfá skipti á hverju ári á þeim tíma og eftir því sem nær dró 2020 fækkaði skiptunum enn fremur.

Eins og eðlilegt er hafði Covid heimsfaraldurinn heilmikil áhrif á starfsemi Helga og hljóðfæraleikaranna og ekkert heyrðist frá sveitinni um tíma, hún kom þó fram á Eyrarrokki árið 2022 en um það leyti hafði farið af stað ferli hjá sveitinni í að endurútgefa efni hennar á plötum, m.a. á vínylformi en einnig á Spotify. Það var heilmikil vinna sem farið var í og sér reyndar ekki enn fyrir endanum á en Gunnar Smári Helgason var fenginn til verksins, við að endurvinna eldri upptökur og koma þeim á útgáfuhæft form – auk þess voru settar af stað safnanir á Karolina Fund til að fjármagna verkefnið en það er reyndar enn í fullum gangi þegar þetta er ritað og margt þegar komið út og meira á leiðinni. Til að bæta enn um betur stendur fyrir dyrum útgáfa á tvöfaldri vínylplötu – Ást og sigur, með „live“ upptökum, annars vegar órafmagnaðar upptökur undir nafninu Ást og sigur: stálið ljúfa, og hins vegar rafmagnaðar undir titlinum Ást og sigur: vírinn hrjúfi. Þær plötur hafa nú þegar litið dagsins ljós á Spotify en vinyllinn er væntanlegur von bráðar. Auk þess hafa komið út í þessari endurútgáfutörn Endanleg hamingja á tvöfaldri vínylútgáfu, Meira helvíti (í tvenns konar mismunandi vínyl-útgáfum, Landnáms-kassettan, Vínland með aukaefni (á Spotify) og sjö tommu smáskífa með lögunum tveimur úr hljómsveitakeppninni í Húnaveri í mjög takmörkuðu upplagi, þá má einnig nefna veglega textabók með öllum útgefnum textum sveitarinnar undir bókartitlinum Textar 1987-2016.

Efni á plötum