Helgi Steingrímsson (1943-2020)

Helgi Steingrímsson

Helgi Steingrímsson var töluvert þekktur á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, framan af sem hljómsveitarstjóri og gítarleikari ballhljómsveita en síðar einnig sem umboðsmaður.

Helgi var fæddur í Reykjavík sumarið 1943 en ólst að miklu leyti upp á Brú í Hrútafirði þar sem foreldrar hans störfuðu sem póst- og símstöðvarstjórar. Það var einmitt þar sem hann stofnaði fyrstu hljómsveit sína sem bar titilinn Brúartríóið en heimildir herma að hún hafi jafnvel verið stofnuð árið 1957 þegar hann var einungis fjórtán ára, hugsanlega var það þá eins konar skólahljómsveit í Reykjaskóla þar sem Helgi var við nám, sem þróaðist yfir í Brúartríóið sem almennt er sagt að hafi verið stofnað 1960. Helgi lék á gítar í sveitinni sem reyndar var stundum kvartett en Brúartríóið lék aðallega á heimaslóðum og nágrannabyggðum Hrútafjarðar, jafnvel á Ströndum.

Helgi fluttist síðar til Reykjavíkur og stofnaði þar ballhljómsveitina Hauka árið 1962 en hann starfaði með þeirri sveit allt til ársins 1975 (að frátöldum stuttum tíma sem hann hafði starfað með hljómsveitinni Örnum) en þá sneri hann sér að umboðsmennsku, hann var mest alla tíð eins konar hljómsveitarstjóri Hauka sem var vel þekkt gleðisveit og er hún almennt talin fyrsta sinnar tegundar, þar sem meðlimir sveitarinnar fífluðust út í eitt á milli laga með groddalegum húmor sem féll dansleikjagestum vel í geð.

Þegar Helgi hætti í Haukum 1975 tók við umboðsmennska um tíma, hann stofnaði útgáfu- og umboðsfyrirtækið Demant hf. ásamt fleirum og það fyrirtæki var stórt á markaðnum meðan það starfaði en það hafði á snærum sér hljómsveitir eins og Change, Júdas og fleiri. Fyrirtækið gaf einnig út plötur t.d. með Megasi (Millilendingu) en starfaði stutt, Helgi starfaði eftir það um hríð sem sjálfstæður umboðsmaður fyrir hljómsveitina Celsius en hætti svo afskiptum af tónlist og sneri sér að allt öðrum og óskyldum málum eftir það.

Helgi lést sumarið 2020 eftir að hafa átt í veikindum um skeið, hann var þá sjötíu og sjö ára gamall.