
Herdís Egilsdóttir
Herdís Egilsdóttir er þekkt nafn en hún hefur helgað líf sitt börnum og kennsluefni fyrir þau, eftir hana liggur töluvert af barnaefni í formi sagna, leikrita og tónlistar.
Herdís Egilsdóttir er fædd 1934 á Húsavík og að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1953 hóf hún að kenna við Ísaksskóla þar sem hún starfaði allt til ársins 1998 eða í alls fjörutíu og fimm ár, hún lét þó ekki staðar numið heldur hefur hún haldið námskeið og kynnt kennsluaðferðir sem hún hefur verið að þróa allt frá því um miðjan áttunda áratuginn. Samhliða kennslunni annaðist hún lengi dagskrárgerð í útvarpi fyrir börn og sá m.a. um Morgunstund barnanna, gaf út bækur m.a. um Siggu og skessuna, Pappírs Pésa, Rympu á ruslahaugunum o.fl. auk þess að semja leikrit sem sett voru á svið s.s. um fyrrnefndan Pappírs Pésa og svo Gegnum holt og hæðir en hún samdi jafnframt tónlist og texta sem sungin voru og leikin í sýningunum. Þannig setti Þjóðleikhúsið leikrit á svið eftir hana og það hafa einnig áhugaleikfélög víða um land gert. Þá hefur Herdís einnig myndskreytt sjálf margar af bókum sínum. Herdís hefur einnig unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir þetta ævistarf sitt, hér má nefna fálkaorðuna, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á Degi íslenskrar tungu, Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins og þannig mætti áfram telja.
Árið 1981 kom bókin Gegnum holt og hæðir út á vegum Arnar & Örlygs og kom einnig út plata með tónlistinni sem hafði verið samin og flutt þegar Leikfélag Kópavogs hafði sett verkið á fjalirnar árið á undan. Á plötunni sá Ragnhildur Gísladóttir um að útsetja tónlistina og færa hana í útgáfuhæft form en fjöldinn allur af þekktum leikurum og tónlistarfólki kom við sögu á henni.
Herdís hefur samið heilmikið af tónlist þótt ekki hafi mikið af henni komið út á plötum, hún hefur einnig samið fjölda texta og t.a.m. samdi hún alla texta á plötu Þórarins Hannessonar – Dyggðirnar sem kom út árið 2007, fleiri textar hafa komið eftir hana á ýmsum plötum. Þá hafa einnig komið út hljóðbækur með Herdísi þar sem hún les eigin sögur.














































