
Hersveitin frá Patreksfirði
Hljómsveit var starfrækt á Patreksfirði á fyrri hluta níunda áratugar liðinnar aldar undir nafninu Hersveitin, reyndar hafði hún þá verið starfandi um tíma undir nafninu Útlendingahersveitin en þegar Kolbeinn Þorsteinsson gítarleikari bættist í hópinn vorið 1983 var nafni hennar breytt í Hersveitin, fyrir í sveitinni voru þá Sævar Árnason gítarleikari, Davíð Hafsteinsson trommuleikari og Kristófer Kristófersson bassaleikari. Einnig mun Glynnis Duffin söngkona hafa verið í sveitinni að minnsta kosti hlut starfstíma hennar og fleiri gætu hafa komið við sögu sveitarinnar.
Hersveitin lék við góðan orðstír á dansleikjum og skemmtunum á Vestfjörðum líklega um tveggja ára skeið en virðist hafa hætt störfum árið 1985. Síðar starfræktu þeir Sævar og Kolbeinn tríó undir sama nafni.














































