Hestreður (2006-07)

Hestreður

Pönksveitin Hestreður vakti nokkra athygli á sínum tíma og sendi t.a.m. frá sér efni sem fékk útvarpsspilun.

Hestreður var frá Hellu og var að öllum líkindum stofnuð árið 2006, sveitin var farin að leika eitthvað opinberlega og hafði sent frá sér lag eða lög sem hlutu spilun á útvarpsstöðinni X-inu áður en hún var meðal þátttökusveita í Músíktilraunum vorið 2007. Meðlimir Hestreðs voru þar þeir Tómas Steindórsson söngvari, Róbert Ómarsson gítarleikari, Sindri Aron Þórsson bassaleikari og Árni Rúnar Kristjánsson trommuleikari, einnig mun Þráinn Þórisson hafa komið fram með sveitinni í tilraununum en hann var þó ekki í henni.

Hestreður komst ekki áfram í úrslit Músíktilraunanna en starfaði eitthvað áfram eftir það, kom m.a. fram á Eistnaflugi um sumarið en virðist svo hafa hætt störfum.