Hljómsveit Akureyrar [2] (1929-34)

Hljómsveit Akureyrar var eins konar vísir að stórsveit sem starfaði á Akureyri um nokkurra ára skeið undir stjórn tónskáldsins Karls. O. Runólfssonar.

Karl O. Runólfsson kom til Akureyrar árið 1929 og bjó þar og starfaði til 1934 og á þeim tíma stjórnaði hann Hljómsveit Akureyrar, sveitin gæti hins vegar hafa átt sér aðeins lengri sögu því að sveit undir þessu nafni spilaði opinberlega á sumardaginn fyrsta árið 1925 – hugsanlega er þó um að ræða aðra sveit (e.t.v. lúðrasveitina Heklu), um það finnast ekki heimildir. Karl hafði komið norður til að stjórna lúðrasveitinni Heklu og stofnaði (líklega) í leiðinni Hljómsveit Akureyrar.

Fyrir liggur að níu manns skipuðu sveitina árið 1931 og þeir voru orðnir þrettán um tveimur árum síðar, auk Karls voru í sveitinni Skafti Sigþórsson (síðar þekktur fiðluleikari), Vigfús Sigurgeirsson, Theódór Lilliendahl, Gunnar Sigurgeirsson, Steingrímur Þorsteinsson, Vigfús Jónsson, Ingimar Jónsson, Guðjón Bernharðsson, Sveinn Bjarman, Þorvaldur Steingrímsson (síðar þekktur fiðluleikari) og Óskar Ósberg – ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hljóðfæraskipan sveitainnar.

Hljómsveitin Akureyrar var góð viðbót við það öfluga tónlistarlíf sem þá var á Akureyri og sveitin hélt fjölda tónleika meðan hún starfaði, m.a. í nokkur skipti í samstarfi við Karlakór Akureyrar og Karlakórinn Geysi en einhverjar upptökur voru gerðar í því samstarfi og komu út á plötu sem gefin var út að Karli látnum – Karl O. Runólfsson. Úrval úr tónverkum: Förumannaflokkar þeysa… (1970), einnig munu einhverjar upptökur vera til í safni Ríkisútvarpsins. Hljómsveit Akureyrar hélt einnig einhverja sjálfstæða tónleika, þá fyrstu árið 1931 í Samkomuhúsi Akureyrar og tveimur árum bauð sveitin upp á ókeypis tónleika og þurftu þá tugir eða jafnvel hundruð manns frá að hverfa.

Sveitin naut í byrjun einhverra styrkja frá Akureyrarbæ en þeir minnkuðu þegar á leið og óvíst var þá um rekstrargrundvell hennar, hvort það varð til þess að Karl hætti með sveitina og flutti aftur suður er þó óvíst en hann fór frá Akureyri haustið 1934 og lagðist starfsemi Hljómsveitar Akureyrar þá af.