
Hljómsveit Ásgeirs Sigurðssonar 1960
Hljómsveit Ásgeirs Sigurðssonar var ásamt hljómsveitum Baldurs Geirmundssonar (BG) helsta hljómsveit Ísfirðinga um árabil en sveitin starfaði í yfir aldarfjórðung þótt ekki hafi það verið alveg samfleytt. Nokkuð af síðar þekktu tónlistarfólki starfaði með þessari sveit sem einnig gekk um tíma undir nafninu Ásgeir og félagar.
Upphaf sögu Hljómsveitar Ásgeirs Sigurðssonar er nokkuð á reiki, svo virðist sem fyrsta útgáfa hennar hafi litið ljós um eða jafnvel fyrir 1960 en sveitin mun í upphafi hafa verið tríó þeirra Ásgeirs Sigurðssonar harmonikkuleikara (og söngvara), Guðna Ingibjartssonar gítar- og mandólínleikara og Trausta Sigurlaugssonar sem lék líklega á trommur í byrjun en færði svo yfir á gítar þegar Halldór Guðmundsson gekk til liðs við þá félaga fljótlega – Helga Hauksdóttir píanóleikari bættist þá einnig við sveitina sem þar með var orðin að kvintett.

Hljómsveit Ásgeirs 1972
Sveitin lék til að byrja með mestmegnis á Ísafirði s.s. í Alþýðuhúskjallaranum en síðar víða vegar um Vestfirði og nágrannasýslurnar, t.d. á héraðsmótum framsóknarmanna í Súðavík, Bolungarvík og víðar, á sjómannadagsdansleikjum, í Skíðaviku Ísfirðinga um páskana og á almennum dansleikjum í félagsheimilinu í Hnífsdal og öðrum samkomuhúsum á Ísafirði og nánasta umhverfi. Einnig fór sveitin í lengri túra t.d. um Dala- og Strandasýslur á áttunda áratugnum og jafnvel til Reykjavíkur þar sem sveitin lék í Sigtúni, og það var lengi vel fastur liður hjá sveitinni að leika á dansleikjum fyrir eldri borgara á Ísafirði.
Hljómsveitin komst reyndar í fréttirnar þegar hún lenti í hrakningum á leið sinni til Patreksfjarðar árið 1975 en þar lenti Volkswagen „rúgbrauð“ þeirra í krapapolli sem hafði myndast eftir aurskriðu þannig að vatn komst upp á miðjar hurðar bílsins og við það skemmdust hljóðfæri hljómsveitarinnar og græjur svo hún þurfti að fá lánsgræjur þegar komið var á áfangastað.
Skipan sveitarinnar á sjöunda áratugnum er ekki alveg á hreinu en gera má ráð fyrir að einhverjar mannabreytingar hafi orðið á henni, Kolbrún Sveinbjörnsdóttir söngkona gekk til liðs við sveitina árið 1967 og um svipað leyti var Rúnar Þór Pétursson bassaleikari hennar – undir lok áratugarins voru auk þeirra þeir Ásgeir (sem þá lék einnig á orgel/hljómborð), Halldór trommuleikari og Sigurður Rósi Sigurðsson bassa- og gítarleikari (sem var síðar kenndur við hljómsveitina Ýr).

Hljómsveit Ásgeirs Sigurðssonar
Og fleiri breytingar urðu á skipan sveitarinnar næstu árin, Ásthildur Cesil Þórðardóttir söngkona var gengin til liðs við sveitina 1972 sem og Örn Jónsson gítarleikari [?] (Ýr o.fl.) en Sigurður Rósi var þá hættur – hann virðist þó hafa komið inn aftur síðar inn í sveitina. Margrét Geirsdóttir söng með sveitinni á árunum 1976 til 1979 og um það leyti var Örn Ingólfsson bassaleikari hennar á því tímaskeiði en Ásgeir, Halldór og Sigurður Rósi voru aðrir meðlimir hennar.
Hljómsveit Ásgeirs Sigurðssonar starfaði allt til ársins 1986 að minnsta kosti en ekki fór eins mikið fyrir sveitinni eftir 1980 og á áttunda árutugnum, og þ.a.l. eru upplýsingar um meðlimi hennar frá því tímaskeiði af skornum skammti. Sveitin var meira í árshátíða- og þorrablótsdeildinni á þeim tíma og lék líklega meira en heimildir á timarit.is segja til um, hún hélt alla tíð fyrir eldri borgara á Ísafirði sem fyrr er nefnt. Eftir miðjan áttunda áratuginn var sveitin stundum nefnd Ásgeir og félagar.














































