Hljómsveit Friðriks Theodórssonar (1977-2001)

Kvintett Friðriks Theodórssonar

Friðrik Theodórsson básúnuleikari starfrækti fjölmargar hljómsveitir í eigin nafni af ýmsum stærðum og af ýmsum toga, flestar voru þær þó djasstengdar.

Elstu heimildir um hljómsveitir Friðriks eru þó af sveit/um sem léku á jólaböllum fyrir börn og þar hefur varla verið um djasshljómsveitir að ræða, þannig eru heimildir um slíkar sveitir frá 1977 og 79 en engar upplýsingar er að finna um skipan þeirra sveita.

Árið 1982 er Friðrik með tríó á veitingastaðnun Naustinu og ári síðar á Hótel Loftleiðum og reikna má með að þær sveitir hafi verið með djassívafi, árið 1984 var tríóið orðið að kvintett á Loftleiðum en enn finnast engar upplýsingar um skipan þessara sveit. Það er ekki fyrr en á tíu ára afmæli Jazzvakningar árið 1985 sem liggja fyrir upplýsingar um liðsskipan hljómsveitar hans en þá var um að ræða kvintett sem var skipaður þeim Friðriki sem lék á básúnu og söng en hann brá stundum fyrir sér scat-söng, Þór Benediktssyni básúnuleikara, Alfreð Alfreðssyni trommuleikara, Tómasi R. Einarssyni kontrabassaleikara og Davíð Guðmundssyni gítarleikara. Sú sveit virðist að nokkru leyti halda sér næstu árin en 1986 voru Guðmundur Ingólfsson píanóleikari og Hans Jensson saxófónleikari komnir í stað Þórs og Davíðs, og um það leyti söng Sonja B. Jónsdóttir með sveitinni og reyndar fleiri söngkonur einnig. Davíð gítarleikari Guðmundsson átti svo aftur eftir að koma inn í sveitina árið 1988 en þá var hún skipuð auk þeirra Friðriks þeim Tómasi á bassa og Guðmundi R. Einarssyni trommuleikara.

Friðrik starfrækti sveit/ir áfram sem voru greinilega í djassgírnum því þeir félagar léku áfram á djassuppákomum s.s. í Duus húsi og Djúpinu, en engar upplýsingar er að finna hverjir skipuðu hana allt þar til aldamótaárið 2000 þegar þeir Árni Ísleifsson píanóleikari, Leifur Benediktsson bassaleikari og Guðmundur R. Einarsson trommuleikari skipuðu kvartett með Friðriki. Ári síðar var bandið skipað þeim Friðriki, Leifi og Guðmundi auk Hauki Gröndal á saxófón og klarinettu, og Birki Frey Matthíassyni á trompet. Einnig mun Jens Hansson saxófónleikari einhverju sinni hafa leikið í hljómsveit Friðriks – ekki liggur fyrir hvenær.

Síðustu heimildir um hljómsveitir í nafni Friðriks Theodórssonar eru því frá árinu 2001 en þær gætu hafa starfað lengur en það, jafnframt vantar töluvert upp á upplýsingar um meðlimi og hljóðfæraskipan sveita hans í gegnum tíðina eins og greint er frá hér að ofan.