Upplýsingar um Hljómsveit Gunnars Jónssonar sem starfaði um miðjan fimmta áratug síðustu aldar eru afar takmarkaðar en svo virðist sem sveitin hafi verið starfrækt í Hafnarfirðinum á árunum 1944-47, a.m.k. lék hún mest á Hótel Birninum þar í bæ sem og Góðtemplarahúsinu. Árið 1947 lék sveitin hins vegar á kabarettsýningum í Trípólí leikhúsinu í Reykjavík.
Um tíma var sveitin tríó af því er virðist en engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu hana nema að Guðmundur Steingrímsson mun hafa verið trommuleikari hennar um tíma líklega árið 1946, sveitin mun jafnframt hafa gengið undir nafninu Swingtríó Gunnars Jónssonar en allar frekari upplýsingar vantar um hljómsveitarstjórann.
Hljómsveit með þessu nafni lék einnig á dansleik í Hlégarði í Mosfellssveit haustið 1955 en óvíst hvort um sama Gunnar sé að ræða, og þá áreiðanlega með öðrum mannskap.














































