Hljómsveit Hauks og Kalla (1956-63)

Hljómsveit Hauks og Kalla var eins konar svar þeirra við breyttum tíðaranda í kringum 1960, þeir félagar og Akureyringar Haukur Ingimarsson og Karl Steingrímsson harmonikkuleikarar höfðu þá um langt árabil leikið tveir saman á dansleikjum um allt norðanvert landið undir nafninu Haukur og Kalli en svo bar við um þær mundir að hljómsveitir voru orðnar mun eftirsóttari en harmonikkuleikarar einir eða tveir á ferð og því stofnuðu þeir hljómsveit.

Svo virðist sem þeir hafi fyrst verið með heila hljómsveit árið 1956 þegar þeir léku á dansleik í Sólgarði í Eyjafirði en engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrara sveitar, stærðar hennar eða annarra meðlima en þá tvo. Árið 1962 og 63 var svo sveit í þeirra nafni (Hljómsveit Hauks og Kalla / Sextett Hauks og Kalla) ráðin til að leika á Hótel KEA á Akureyri en um var að ræða sex manna sveit sem lék gömlu dansana – hér vantar einnig upplýsingar um aðra meðlimi sveitarinnar. Ekki liggur fyrir hvort hljómsveitin starfaði lengur en það.

Löngu síðar, árið 1986 spiluðu þeir Haukur og Kalli á skemmtun fyrir eldri borgara á Akureyri ásamt Hannesi [?] bassaleikara og Guðmundi [?] trommuleikara en sú sveit virðist ekki tengjast þeirri eldri á nokkurn hátt en vera frekar hluti af starfsemi Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð, þar sem þeir félagar voru virkir á síðari árum.