Fáar heimildir er að finna um hljómsveit harmonikkuleikarans Hauks Sveinbjarnarsonar en hann starfrækti að líkindum tvívegis hljómsveitir í eigin nafni.
Hljómsveit Hauks Sveinbjarnarsonar hin fyrri starfaði á árunum 1955 til 57 að því er virðist en Haukur hafði á árunum á undan starfað með S.O.S. sem lék mestmegnis í Árnes- og Rangárvallasýslum en hafði hætt störfum 1953, ekki er ólíklegt að hljómsveit Hauks hafi verið eins konar afsprengi þeirra fyrri – sveitin lék mikið í Selfossbíói og söngkonur eins og Inga Jónasar (Ingibjörg Jónasdóttir) og Soffía Karlsdóttir komu þá fram með henni, þessi sveit lék einnig á höfuðborgarsvæðinu og m.a. í Breiðfirðingabúð.
Haukur var svo einnig með hljómsveit árið 1965, sú sveit var skammlíf og lék m.a. á dansleik í Brautartungu í Borgarfirðinum og mun hafa sérhæft sig í gömlu dönsunum. Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu þessar sveitir með Hauki Sveinbjarnarsyni.














































