Hljómsveit sem mun hafa gengið undir ýmsum nöfnum en er hér kölluð Hljómsveit Hinriks Konráðssonar starfaði í Ólafsvík um 1960 og lék á dansleikjum þar um kring í nokkur ár.
Heimildir um þessa sveit eru takmarkaðar, ekki er t.d. ljóst hvenær hún starfaði nákvæmlega en hún var að minnsta kosti starfrækt árið 1958 en þá um sumarið var Rúnar Guðjónsson söngvari hennar. Hljómsveitarstjórinn Hinrik Konráðsson hafði flust til Ólafsvíkur árið 1954 og því er ljóst að sveitin starfaði einhvern tímann eftir það og jafnvel til 1962 eða lengur. Hún gekk fyrst í stað undir nafninu Hljómsveit Ólafsvíkur en mun svo hafa hlotið nafnið HK kvartett / H.K. kvartett þótt hún hafi yfirleitt verið kölluð Hljómsveit Hinriks Konráðssonar. Aðrir meðlimir sveitarinnar sem kunnugt er um að hafi starfað með henni voru Sigurgeir Bjarnason gítarleikari, Gunnar Jón Vilhjálmsson saxófónleikari, Ríkharður Traustason gítarleikari og Einar Kristjánsson trommuleikari, sjálfur lék Hinrik á harmonikku.
Frekari upplýsingar óskast um þessa hljómsveit og tilurð hennar.














































