Segja má að tvær hljómsveitir megi kenna við söngkonuna Hjördísi Geirsdóttur, annars vegar var um að ræða hljómsveit sem Hjördís söng með haustið 1985 á skemmtistaðnum Ríó við Smiðjuveg í Kópavogi í nokkur skipti en engar upplýsingar er að finna um þá sveit, meðlimi hennar og hljóðfæraskipan aðrar en að hún lék gömlu dansana og tónlist eldri kynslóða, reyndar rétt eins og síðari sveitin. Hins vegar var hin eiginlega hljómsveit Hjördísar Geirsdóttur sem starfaði í áratugi en sveitin var í raun framhald hljómsveitar Jóns Sigurðssonar (bankamanns) sem áður hafði verið starfrækt um langa hríð.
Jón Sigurðsson hafði átt við heilsubrest að stríða og Sigurgeir Björgvinsson hljómborðs- og harmonikkuleikari hafði leyst hann af um tíma árið 1991 en aðrir meðlimir hljómsveitar Jóns voru þeir Ragnar Páll Einarsson gítarleikari, Trausti Jónsson trommuleikari (sonur Jóns), Gunnar Pálsson bassaleikari og svo söngkonan Hjördís Geirsdóttir. Örlögin tóku hins vegar málin í sínar hendur og Jón átti ekki afturkvæmt því hann lést snemma árs 1992, sveitin starfaði þó áfram í nafni Jóns fram á vorið en þá rann samningur hennar út við veitinga- og skemmtistaðinn Ártún en þar hafði hún verið um langt skeið.
Meðlimir sveitarinnar ákváðu að halda samstarfinu áfram undir nafninu Hljómsveit Hjördísar Geirs en ekki er þó ljóst hvort skipan hennar var að öllu leyti óbreytt. Sveitin lagði áherslu á danstónleik fyrir fólk komið af léttasta skeiðinu en var þó í raun með nokkuð alhliða ballprógramm, sveitin lék mestmegnis á árshátíðum og slíkum dansleikjum og skemmtunum í byrjun en haustið 1993 var hún komin í Ártún á nýjan leik og starfaði þar um tveggja ára skeið. Síðar tóku við dansstaðir eins og Danshúsið í Glæsibæ, Næturgalinn og Hreyfilshúsið en einnig lék sveitina á stærri stöðum eins og Hótel Íslandi, Broadway og Hótel Sögu auk félagsheimila átthagafélaganna og svo félagsheimilum úti á landi s.s. Félagslundi, Borg í Grímsnesi, Hlégarði og víðar. Auk þess lék sveitin mikið í einkasamkvæmum en hún starfaði nokkuð sleitulítið allt til ársins 2009 og hafði yfrið nóg að gera. Síðustu tíu árin lék sveitin mikið á dansleikjum og skemmtunum fyrir eldri borgara.
Hljómsveit Hjördísar var kvintett allt til ársins 1998 og voru þeir Ragnar Páll og Sigurgeir allan tímann í sveitinni en Ólafur Bachmann trommuleikari lék með henni undir það síðasta sem hún starfaði í þeirri stærð, upplýsingar vantar hins vegar um aðrar mannabreytingar sem gætu hafa orðið á henni fram til 1998 en þá var hún skorin niður í tríó þeirra Hjördísar, Sigurgeirs og Ragnars Páls – og þannig starfaði hún þar til yfir lauk líklega þó með þeirri undantekningu að þegar sveitin lék í Danshúsinu í Glæsibæ árið 2006 var hún skipuð þremenningunum auk Birgis Ottóssonar bassaleikara og Trausta fyrrverandi trommuleikara sveitarinnar, tilefni þess var að um var að ræða síðasta dansleikinn í húsinu áður en það var rifið.
Meðlimir Hljómsveitar Hjördísar Geirs voru meðal flytjenda á plötu Hjördísar – Hjördís Geirsdóttir ásamt gömlum og góðum félögum, sem kom út árið 2001 en þar komu reyndar miklu fleiri hljóðfæraleikarar og söngvarar við sögu.
Sveitin hætti sem fyrr segir störfum árið 2009.














































