Hljómsveitir störfuðu innan Hótel Þrastar í Hafnarfirði um miðbik fimmta áratugar síðustu aldar í nafni hótelsins, upplýsingar um þær eru hins vegar af skornum skammti.
Hótel Þröstur opnaði haustið 1945 en það hafði áður borið nafnið Hótel Björninn, fimm manna strengjasveit lék á hótelinu fyrst um sinn undir stjórn Óskars Cortes og reyndar var hún eitthvað breytileg að stærð en engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu hana með hljómsveitarstjóranum, sjálfur lék Óskar á fiðlu.
Árið 1946 lék hljómsveitin Kátir piltar í nokkur skipti á hótelinu og árið 1947 voru fjögurra og fimm manna hljómsveitir starfræktar í húsinu, sem engar frekari upplýsingar er þó að finna um. 1948 hafði sýnilega verið breytt um takt í tónlistarmálum Hótel Þrastar því þá annaðist Tékkinn Jan Morávek tónlistarflutning einn síns liðs en hann var þá nýlega fluttur til landsins.
Hótel Þröstur lokaði árið 1949.














































