
Hljómsveit I. Eydal
Hljómsveit I. Eydal var í raun sama hljómsveit og Hljómsveit Ingimars Eydal sem hafði starfað um áratuga skeið á Akureyri en þegar Ingimar lést snemma árs 1993 var afráðið að sveitin starfaði áfram undir þessu nafni – þá var dóttir Ingimars, Inga Dagný Eydal söngkona hljómsveitarinnar þannig að I-ið í nafni sveitarinnar gat staðið fyrir bæði Ingu og Ingimar.
Meðlimir Hljómsveitar I. Eydal voru auk Ingu sem annaðist sönginn, þeir Þorleifur Jóhannsson trommuleikari, Snorri Guðvarðarson gítarleikari og Grímur Sigurðsson bassaleikari sem allir höfðu starfað með Ingimari um árabil, sem og Gunnar Gunnarsson hljómborðsleikari en hann hafði áður leikið með sveit Ingimars í afleysingum. Fjölmargir gestasöngvarar og -hljóðfæraleikarar tóku svo lagið með sveitinni meðan hún starfaði, og þar má nefna Helenu Eyjólfsdóttur, Þorvald Halldórsson, Finn Eydal og Bjarka Tryggvason sem öll höfðu áður komið við sögu hljómsveitar Ingimars.
Hljómsveit I. Eydal starfaði í nokkur ár, lék mestmegnis á Akureyri og nærsveitum s.s. í Sjallanum og Hótel KEA (og oft fyrir matargesti) en einnig lék hún töluvert sunnan heiða bæði á stöðum eins og Hótel Íslandi sem og á þorrablótum og þess konar samkomum, þá fór sveitin einnig í nokkur skipti út fyrir landsteinana til að leika fyrir Íslendinga erlendis – aðallega á þorrablótum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.
Ekki urðu miklar mannabreytingar innan sveitarinnar, Jón Rafnsson bassaleikari tók sæti Gríms en þegar Viðar Garðarsson – annar bassaleikari kom inn í hana árið 1998 var skipt um nafn á sveitinni og hét hún eftir það V.I.P (VIP) og starfaði um tíma undir því nafni. Sveitin var þó áfram eitthvað auglýst einnig undir gamla nafninu allt fram að aldamótum og var reyndar ýmist nefna Hljómsveit I. Eydal eða Hljómsveit Ingu Eydal.














































