
Hljómsveit Jóhannesar Eggertssonar 1965
Jóhannes Eggertsson selló- og slagverksleikari starfrækti að minnsta kosti tvívegis danshljómsveitir sem sérhæfðu sig einkum í gömlu dönsunum, í þeim sveitum lék hann á trommur.
Fyrri hljómsveit Jóhannesar sem hér er vísað til starfaði á árunum 1956 og 57 í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni (og gæti jafnvel hafa starfað þar lengur) en litlar og haldbærar heimildir finnast um hana, í heimildum er hún iðulega kölluð Hljómsveit Vetrargarðsins. Jóhannes Eggertsson var sem fyrr segir trymbill sveitarinnar og Magnús Ingimarsson var píanóleikari hennar en upplýsingar um aðra meðlimi eru ekki á lausu.
Síðari hljómsveit Jóhannesar Eggertssonar sem vitað er um lék gömlu dansana í Ingólfscafe um nokkurra ára skeið og það nánast samfleytt frá vorinu 1965 og allt til vorsins 1969. Fyrir liggur að auk Jóhannesar voru í þessari sveit árið 1965 þeir Vilhelm Guðmundsson píanóleikari, Eyjólfur Pálsson harmonikkuleikari og Vilhjálmur Guðjónsson klarinettuleikari auk þess sem Grétar Guðmundsson var söngvari hennar og söng reyndar með henni alla tíð, um aðra meðlimi sveitarinnar aðra en Jóhannes liggja ekki fyrir neinar upplýsingar nema frá árinu 1965.
Upptökur höfðu verið gerðar með hljómsveitinni á vegum Ríkisútvarpsins sem dregnar voru reglulega fram í dagsljósið og leiknar í dagskránni á sjöunda og áttunda áratugnum, sem sýna ágætlega þá tónlist er sveitin lék.














































