
Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar 1957
Jón Páll Bjarnason gítarleikari starfrækti fjöldann allan af hljómsveitum allan sinn starfsferil og af ýmsu tagi, djasstengdum sveitum hans hefur verið gerð skil í sér umfjöllun undir Tríó Jóns Páls Bjarnasonar en hér eru hins vegar til umfjöllunar aðrar hljómsveitir hans.
Fyrsta Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar starfaði í Breiðfirðingabúð í upphafi árs 1957 og var skammlíf undir stjórn hans, meðlimir þessarar sveitar voru upphaflega þeir Ólafur Stephensen píanóleikari, Árni Egilsson bassaleikari, Gunnar Mogensen trommuleikari, Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari og Jón Páll á gítar. Fljótlega tóku Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari og Andrés Ingólfsson saxófónleikari við af þeim Gunnari Mogensen og Gunnari Reyni en ekki leið á löngu þar til Jón Páll ákvað sjálfur að yfirgefa sveitinni en sagan segir að erfitt hafi verið að hafa stjórn á meðlimum hennar vegna drykkju – Andrés tók þá við stjórn sveitarinnar og varð hún feikilega öflug undir hans stjórn.
Næst var Jón Páll með hljómsveit í Glaumbæ haustið 1961 en það mun hafa verið fyrsta húshljómsveitin þar, engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu sveitina í upphafi nema að Cole Porter var söngvari hennar en árið 1962 voru meðlimir hennar Þórarinn Ólafsson píanóleikari, Árni Egilsson bassaleikari og Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari, einnig mun Guðjón Pálsson píanóleikari hafa verið í sveitinni á einhverjum tímapunkti um þetta leyti. Árni Scheving átti eftir að leysa Árna nafna sinn Egilsson af á bassanum en hann lék einnig á harmonikku. Söngkonan Sigrún Jónsdóttir söng með sveitinni um tíma sumarið 1962 en hún bjó þá og starfaði í Noregi en kom heim í nokkrar vikur, og þegar hún sneri aftur til Noregs tók Elly Vilhjálms við söngnum en hún var þá gift Jóni Páli.

Hljómsveit Jóns Páls 1973
Um sumarið 1962 færði sveitin sig yfir á Hótel Borg og starfaði þar í rúmlega ár, sveitin var áfram skipuð sömu meðlimum en söngvarar komu og fóru, Elly var um þetta leyti í barneignum og Jakob Ó. Jónsson tók við söngnum um tíma en einnig komu hingað til lands erlendar söngkonur og sungu með sveitinni s.s. hinar skosku Prince systur og Margit Calva. Yfir sumartímann fór sveitin eitthvað út á landsbyggðina í ballspilamennsku en samgöngur voru þá að lagast heilmikið á sama tíma og félagsheimili spruttu upp í hverjum hreppi á þeim tíma. Hljómsveitin hætti störfum haustið 1963, Jón Páll flutti Danmerkur og síðar Svíþjóðar og þau Elly skildu.
Tæpur áratugur leið þar til þriðja og síðasta danshljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar tók til starfa, hún var sett á laggirnar síðsumars 1972 á Hótel Loftleiðum og voru meðlimir þeirrar sveitar auk Jóns Páls sjálfs þeir Árni Scheving bassa- og saxófónleikari, Guðmundur Ingólfsson píanó- og orgelleikari, Benedikt Pálsson trommuleikari og Kristbjörg Löve söngkona. Einhverjar mannabreytingar urðu á hljómsveitinni, Gunnar Ingólfsson trommuleikari kom inn í hana og þá líklega einnig sem söngvari, Þuríður Sigurðardóttir leysti Kristbjörgu af hólmi undir lok ársins en sveitin virðist að mestu hafa haldist óbreytt eftir það utan þess að Hilarie Jordan söng með henni sumarið 1973. Sveitin mun hafa hætt störfum í nóvember en ein heimild segir hana reyndar hafa starfað til vorsins 1974, sem stemmir þó varla því Jón Páll var þá aftur fluttur utan til Svíþjóðar.
Eftir að Jón Páll flutti aftur heim til Íslands um aldamótin starfrækti hann einvörðungu djasssveitir sem lesa má sig til um undir heitinu Tríó Jóns Páls Bjarnasonar sem fyrr segir.














































