
Hljómsveit Jóns Sigurðssonar
Jón Sigurðsson trompetleikari eins og hann var yfirleitt nefndur (til aðgreiningar frá Jóni Sigurðssyni í bankanum og Jóni Sigurðssyni bassaleikara) var frá Akureyri og þar starfaði hann með og starfrækti hljómsveitir á yngri árum.
Hann var tvítugur þegar hann stofnaði hljómsveit í eigin nafni sem lék mestmegnis á Hótel Norðurlandi en einnig á skemmtunum og dansleikjum á Akureyri og nágrenni. Þessa sveit skipuðu í upphafi 1947 þeir Magnús Pétursson píanóleikari, Sverrir Jóhannesson klarinettu- og saxófónleikari, Einar Jónsson trommuleikari og svo Jón sjálfur sem lék á trompet, þeir félagar voru húshljómsveit á Hótel Norðurlandi um veturinn 1947-48.
Einhverjar mannabreytingar urðu á sveitinni, Helgi Ingimundarson lék t.a.m. með henni sumarið 1948 á hótelinu en fór suður um haustið sem og Sverrir og Magnús. Í þeirra stað kom Héðinn Friðriksson píanóleikari og einhverjir fleiri sem ekki eru upplýsingar um en auk þeirra voru þá í sveitinni Einar trommuleikari og Jón sjálfur. Þannig var sveitin skipuð þar til vorið 1949 að Steinþór Steingrímsson píanó- og trompetleikari og Grettir Björnsson harmonikku-, klarinettu- og saxófónleikari komu inn í hana en aðrir meðlimir voru Einar og Jón. Þeir tveir síðast töldu voru þeir einu sem voru allan tímann í sveitinni en hún hætti störfum um haustið 1949 þegar Jón fluttist suður til Reykjavíkur.
Jón stjórnaði síðar að minnsta kosti tvívegis hljómsveitum í leikhúsi, annars vegar í söngleiknum Allra meina bót sem Sumarleikhúsið setti á svið árið 1961 en þar var um að ræða fimm manna sveit – hins vegar í Þjóðleikhúsinu í söngleiknum Táningaást árið 1964, í þeirri sveit léku með trompetleikaranum þeir Árni Scheving bassaleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Jón Páll Bjarnason gítarleikari og Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari en það mun hafa verið einhvers konar djasshljómsveit.














































