Hljómsveit Josef Felzmann (1953-55)

Hljómsveit Austurríkismannsins Josef Felzmann starfaði um tveggja ára skeið um miðbik sjötta áratugarins en Felzmann hafði þá dvalið hér á landi og starfað með hléum síðan 1933. Hljómsveitin hafði mikið að gera við spilamennsku í Tjarnarcafe og við plötuupptökur en hún kom við sögu á nokkrum plötum Alfreðs Clausen

Fyrstu heimildir um hljómsveit í nafni Josef Felzmann eru frá því um sumarið 1953 en þá var hann með tríó sem lék lítillega í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina, reyndar gæti hér hafa verið um að ræða sveit sem lék klassíska tónlist en það var skipað þeim Felzmann, Aage Lorange og Jan Morávek. Það var hins vegar um haustið sem hin eiginlega hljómsveit Josef Felzmann tók til starfa sem húshljómsveit í Tjarnarcafe, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina með honum í upphafi en Ragnar Bjarnason söng töluvert með henni.

Þetta ár (1953) komu hins vegar út þrjár plötur þar sem sveitin lék undir söng Alfreðs Clausen í lögum eins og Ágústnótt, Vökudraumar og Lagið úr „Rauðu myllunni“, sveitin er skipuð mismunandi mannskap á plötunum þremur og því er óljóst hvort um sömu sveit og lék í Tjarnarcafe sé að ræða. Þannig léku Carl Billich og Einar B. Waage með honum á öllum plötunum þremur á píanó og bassa en Jan Morávek (harmonikka) og gítarleikararnir Trausti Thorberg og Karl Lilliendal komur við sögu á einni plötu hver, þá lék Jóhannes Eggertsson trommuleikari einnig á einni plötu. Ein plata til viðbótar kom út árið 1954 þar sem hljómsveitin kom við sögu en engar upplýsingar er að finna um skipan sveitarinnar á þeirri plötu – nokkrar endurútgáfur komu svo út með lögum af fyrri plötunum á næstu árum en 45 snúninga plötuformið var um það leyti að leysa gamla 78 snúninga plöturnar af hólmi. Hér er rétt að geta að á mörgum plötum Alfreð Clausen eru hljómsveitirnar sem leika með honum oft skipaðar sömu meðlimum þó misjafnt sé hver sé titlaður hljómsveitarstjóri.

Hljómsveit Josef Felzmann lék áfram í Tjarnarcafe allt árið 1954 og fram að áramótum, um haustið var sveitin skipuð þeim Aage Lorange píanóleikara, Guðmundi Vilbergssyni trompet- og harmonikkuleikara, Poul Bernburg trommuleikara og Einari Waage kontrabassaleikara en sjálfur lék Felzmann á fiðlu, Ragnar Bjarnason söng sem fyrr oft með hljómsveitinni.

Hljómsveitin starfaði eitthvað áfram árið 1955, hún lék lítillega snemma árs en hvarf svo af sjónarsviðinu. Um sumarið birtist aftur sveit í nafni Josef Felzmann í Röðli og á kabarettsýningum í Austurbæjarbíói en virðist hafa starfað stutt, þar var um að ræða tríó sem lék einhvers konar „Vínartónlist“ en engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar sveitar.

Efni á plötum