Hljómsveit Karls Runólfssonar (1928-42)

Hljómsveit Karls Runólfssonar

Karl O. Runólfsson var fyrst og fremst þekkt tónskáld en áður en hann sneri sér að þeim fræðum starfrækti hann hljómsveitir og var raunar líklega fyrstur Íslendinga til að reka danshljómsveit hér á landi, sveitir hans voru venjulega auglýstar undir nafninu Hljómsveit Karls Runólfssonar.

Fyrstu heimildir um hljómsveit starfandi undir hans stjórn herma hana hafa leikið í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík (Gúttó við Tjörnina) árið 1928 en Karl var þá nýkominn úr tónlistarnámi í Kaupmannahöfn, um þessa hljómsveit var reyndar notað hugtakið „hljóðfæraflokkur“ en hún var sextett – ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um hana en vitað er að Aage Lorange var píanóleikari í sveitinni, sjálfur lék Karl á trompet eða fiðlu. Þessi sveit lék um tíma á Hótel Heklu og einnig segir sagan að hún hafi leikið á Gullfossi yfir sumartímann og varð þ.a.l. fyrst íslenska hljómsveitin sem lék á skipi – hugsanlega er það sama hljómsveit og gekk undir nafninu Dansband Eimskipa en meðlimir þeirrar sveitar voru Auðbjörn Emilsson, Björn Marinó Björnsson, Eggert Jóhannesson trompetleikari, Aage Lorange píanóleikari og Björn Jónsson saxófónleikari auk Karls.

Á árunum 1929 til 34 bjó Karl og starfaði á Akureyri þar sem hann auðgaði tónlistarlífið með veru sinni, hann stofnaði þar og starfrækti hljómsveit sem lék framan af mest á leiksýningum og skemmtunum Leikfélags Akureyrar, síðar hóf sveitin að leika á dansleikjum einnig. Engar upplýsingar er að finna um skipan þessarar sveitar Karls en hún er ýmist sögð vera tríó eða hljómsveit, líklegt er að Skafti Sigþórsson og Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikarar hafi verið í þeirri sveit en þeir voru einnig í Hljómsveit Akureyrar sem starfaði undir stjórn Karls nyrðra og áttu eftir að starfa með honum síðar.

Haustið 1934 var Karl aftur fluttur suður yfir heiðar og fljótlega var hann kominn með hljómsveit í Reykjavík, sú sveit lék fyrst um sinn í sýningum Leikfélags Reykjavíkur en sumarið 1935 fór hann með sveit sína norður á Siglufjörð en þar var síldarævintýrið í fullum gangi og mikið fjör. Skafti fiðluleikari var þar einn meðlima sveitarinnar með Karli en ekki eru upplýsingar um aðra meðlimi nema að Kjartan Eide Pálsson [orgelleikari?] mun hafa starfað með sveitinni á einhverjum tímapunkti fyrir 1938 – einnig hafa nöfn eins og Árni Björnsson píanóleikari og Helga Guðmundsdóttir píanóleikari verið nefnd í þessu samhengi en ekki liggur fyrir hvenær þau voru í sveitinni. Skafti var ennþá í sveitinni ári síðar (sumarið 1936) þegar hún var húshljómsveit á Hótel Akureyri en þá var hún kvartett.

Svo virðist sem hljómsveit Karls hafi starfað fram á haustið 1936 en svo heyrist ekkert til sveitar í hans nafni fyrr en haustið 1939 að slík sveit lék á dansleik í Iðnó, það virðist hafa verið aðeins einn dansleikur og einnig var hún starfandi árið 1942 en það virðist vera síðasta starfsár sveitarinnar og Karl O. Runólfsson helgaði sig tónsmíðum mestmegnis eftir það.