Hljómsveit Sigrúnar Jónsdóttur (1960)

Hljómsveit Sigrúnar Jónsdóttur

Sigrún Jónsdóttir var meðal þekktustu söngkvenna Íslands á sjötta áratug síðustu aldar og hafði þá sungið stórsmelli á borð við Fjóra káta þresti og Lukta-Gvend Hún hafði um tíma starfað með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar en þegar sú sveit hætti störfum vorið 1960 varð úr að Sigrún tók við stjórn hljómsveitarinnar af Magnúsi, og hlaut sveitin þá nafnið Hljómsveit Sigrúnar Jónsdóttur – einnig nefnd Quintett Sigrúnar Jónsdóttur. Þessi sveit markar ákveðin tímamót í íslenskri tónlistarsögu því þarna varð til fyrsta íslenska hljómsveitin sem kennd var við konu.

Meðlimir Hljómsveitar Sigrúnar Jónsdóttur voru auk söngkonunnar þeir Pétur Jónsson saxófónleikari, Gunnar Sigurðsson bassaleikari, Gunnar Mogensen trommuleikari og Jón Möller píanóleikari sem hafði tekið sæti Magnúsar. Sveitin starfaði í fáeina mánuði, leysti KK sextett af í Þórcafe um sumarið en mun einnig eitthvað hafa leikið á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum. Þegar Sigrúnu bauðst um haustið að flytjast til Noregs og starfa við tónlist þar greip hún tækifærið og þá lauk sögu hljómsveitar hennar.