Hljómsveit Sigurðar Jóhannessonar á Akureyri starfaði á fyrri hluta sjötta áratugar síðustu aldar, fyrst árið 1951 og svo aftur 1955 – ekkert bendir til að þessi sveit hafi starfað samfleytt á þessum árum.
Árið 1951 lék sveit Sigurðar að minnsta kosti tvívegis á dansleikjum í Hrafnagili í Eyjafirði, en hún var töluvert virkari fjórum árum síðar (1955) þegar hún lék um vorið á skemmtun í Nýja bíói á Akureyri þar sem Sigurlína Jónsdóttir og Jósteinn Konráðsson sungu með sveitinni, og svo á nokkrum dansleikjum síðar um sumarið m.a. á dansleik á Sauðárkróki þar sem Knattspyrnufélag Akureyrar (KA) stóð fyrir kabarettsýningu. Um það leyti hafði sveitin staðið fyrir æfingum fyrir unga dægurlagasöngvara eins og gert var sunnan heiða um svipað leyti en rokkið var á þeim tíma að hefja innreið sína.
Engar frekari upplýsingar er að finna um þessa hljómsveit, meðlimi hennar eða hljóðfæraskipan og er því hér með óskað eftir þeim.














































