
Hljómsveit Steingríms Stefánssonar
Hljómsveit Steingríms Stefánssonar á Akureyri starfaði um árabil á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og lék við nokkrar vinsældir á Akureyri og nærsveitum en fór einnig víðar um norðan- og austanvert landið með spilamennsku og jafnvel allt suður til Stöðvarfjarðar.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1978 af Steingrími Stefánssyni en hann var gamalreyndur reynslubolti úr tónlistarbransanum og hafði m.a. leikið á trommur með hljómsveitum eins og Póló, aðrir liðsmenn sveitar Steingríms voru í upphafi þeir Björgvin Baldursson gítar- og harmonikkuleikari, Helgi Guðmundsson gítarleikari [?], og Finnur Finnsson bassaleikari.
Þessi skipan var á sveitinni líklega allt til haustsins 1981 en þá kom Birgir Karlsson gítarleikari inn í hana og starfaði með sveitinni í um tvö ár þegar Ingvar Grétarsson tók við af honum, Ingvar söng þá líka en ekki liggur fyrir hver hafði verið söngvari sveitarinnar fram að því – þá hafði Albert Ragnarsson einnig leyst Björgvin af hólmi.

Hljómsveit Steingríms 1982
Auk þess að leika á dansleikjum víða um sveitir Eyjafjarðarsvæðisins og mun víðar eins og kemur fram hér að ofan, lék sveitin einnig töluvert á Akureyri og var t.a.m. töluvert oft í Sjallanum á þessum árum, sveitin bauð upp á fjölbreytilegt dansleikjaprógramm og var með blöndu af nýrri tónlist og gömlu efni og hentaði því vel fyrir alla aldurshópa.
Einhverjar fleiri breytingar urðu á skipan hljómsveitar Steingríms, Júlíus Guðmundsson var söngvari hennar um miðjan níunda áratuginn en ekki liggur fyrir hverjir aðrir skipuðu sveitina þá með hann innanborðs, og einnig vantar upplýsingar um skipan sveitarinnar allt þar til hún hætti árið 1989 en þá hafði hún smám saman verið að draga saman seglin. Um haustið hafði Steingrímur gengið til liðs við nýja hljómsveit, Fjóra fjöruga svo hljómsveitin var augljóslega hætt störfum þá. Hljómsveit Steingríms lék aldrei sem slík inn á plötur meðan hún starfaði en þeir Steingrímur, Birgir og Finnur léku þó inn á plötur harmonikkuleikarans Jóns Hrólfssonar 1981 og 1984 en síðari platan var reyndar í félagi við annan harmonikkuleikara, Aðalstein Ísfjörð – sú spilamennska var þó ekki í nafni hljómsveitar Steingríms.














































