
Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar 1964
Þorsteinn Guðmundsson á Selfossi, iðulega kallaður Steini spil hafði verið í Hljómsveit Óskars Guðmundssonar í um áratug árið 1963 þegar hann ákvað að söðla um og stofna sína eigin sveit. Litlar sem engar upplýsingar er að finna um þessa fyrstu útgáfu sveitarinnar aðrar en að um tríó var að ræða og var Bragi Árnason hugsanlega trommuleikari hennar en sjálfur lék Þorsteinn á harmonikku og saxófón. Fljótlega varð tríóið að sextett en það mun hafa verið fyrir tilstuðlan Péturs Guðjónssonar umboðsmann (Péturs rakara), hann fékk sveitina til að starfa með Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar (líklega sumarið 1964) og saman herjuðu þær saman á ballmarkaðinn á Suðurlandi. Þessi sveit starfaði ekki nema um eins árs skeið því einhver óeining var innan hennar og því ákvað Þorsteinn að stofna nýja sveit sem tók til starfa árið 1965, sú var tríó og var ýmist kölluð Hljómsveit eða Tríó Þorsteins Guðmundssonar, jafnvel Hljómsveit eða Tríó Steina spil.
Nýja sveitin innihélt þá Kristinn Alexandersson trommuleikara, Sigfús Ólafsson gítarleikara og Þorstein sem nú hafði keypt sér rafmagnsharmonikku eða svokallaðan kordóvox sem þá var nýlunda, allir sungu þeir þremenningarnir. Sveitin lék strax mjög víða um Árnes- og Rangárvallarsýslur s.s. í Selfossbíói, Hvoli, Tryggvaskála, Hótel Hveragerði, Álfaskeiði, Laugarvatni og víðar, og hélt sig einkum á því svæði.

Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar
Árið 1967 varð sú breyting á skipan sveitarinnar að Sigfús gítarleikari hætti og Haukur Ingibergsson tók sæti hans, í kjölfarið stækkaði spilunarsvæði tríósins til muna og sveitin hóf að leika á höfuðborgarsvæðinu s.s. á árshátíðum og þorrablótum átthagafélaga, og svo á Veitingahúsinu við Lækjarteig (síðar Klúbbnum), Skiphóli í Hafnarfirði og víðar. Einnig færði sveitin sig yfir í aðra landsfjórðunga, lék t.a.m. Landsmóti UMFÍ á Eiðum og Atlavík sumarið 1968 og svo mjög víða um austanvert landið og reyndar öðrum fjórðungum, jafnframt lék tríóið mikið á Suðurnesjunum – í Stapa í Njarðvíkum, Festi í Grindavík, Garði og víðar.
Vorið 1970 kom út fjögurra laga plata með sveitinni á vegum SG-hljómplatna en tvö laganna voru eftir Þorstein sjálfan, Ekkert jafnast á við dans og Snjómokstur (Mokið meiri snjó) en síðarnefnda lagið náði nokkrum vinsældum við texta eftir Davíð Stefánsson. Einnig var þarna að finna lagið Vakna Dísa en það var að koma í fyrsta inn út á plötu, síðasta lag plötunnar var Bréfið hennar Stínu – þó ekki sama lag og hafði komið út með Heimi og Jónasi ári fyrr.
Tveimur árum síðar, haustið 1972 birtist önnur SG-smáskífa með hljómsveit Þorsteins. Fyrri platan hafði gengið þokkalega og þessi gerði það einnig en öll lögin fjögur fengu útvarpsspilun, lögin Hanna litla, Ó María mig langar og Kenn þú mér, Kristur heyrast þannig stöku sinnum ennþá í ljósvakamiðlunum og lagið Lífsflótti hefur m.a.s. orðið svo frægt annars vegar að lenda í hinni frægu Upplyftingar-syrpu sem varð feikivinsæl sumarið 1982, og hins vegar fyrir að pönkhljómsveitin Rass tók það upp á sína arma og gaf út á plötu sinni Andstöðu sem kom út 2005.

Tríó Þorsteins 1973
Gagnrýnendur dagblaðanna voru þó ekki ýkja hrifnir af smáskífunum tveimur og þótti tónlistin ekki merkileg, og reyndar viðurkenndu meðlimir sveitarinnar í viðtölum að þeir hefðu það að aðal markmiði að skemmta dansleikjagestum fremur en að tónlistarlegur metnaður lægi þar að baki. Fyrir vikið var tónlist sveitarinnar flokkuð sem „brennivínstónlist“ sem var hugtak gjarnan notað í þessu samhengi – frægasti fulltrúi brennivínstónlistarinnar var þó sjálfsagt hljómsveitin Haukar sem gengu mun lengra en t.d. Þorsteinn og félagar í að skemmta sjálfum sér í leiðinni með almennu sukki.
Um þetta leyti þegar áttundi áratugurinn hafði hafið innreið sína, hafði Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar haldið sínu striki með gegndarlausri spilamennsku brennivínstónlistar sinnar við miklar vinsældir á böllum um land allt, dansleikjum sem kallaðir voru mismunandi nöfnum eftir tilefninu hverju sinni – þorrablót, árshátíðir, hjónaböll, Jónsmessumót, hestamannaböll, réttaböll, héraðsmót eða bara venjuleg sveitaböll en varð reyndar einnig svo fræg að koma fram ásamt fleiri skemmtikröftum á stórri kvöldskemmtun á vegum Lions hreyfingarinnar sem haldin var í Háskólabíói haustið 1972, líklega hafði Svavar Gests einhver inngrip þar því hann var hátt settur innan Lions og um það leyti var seinni smáskífa sveitarinnar að koma út á vegum útgáfufyrirtækis hans.

Hljómsveit Þorsteins 1974
Sveitin hóf um svipað leyti einnig að leika fyrir Íslendinga á erlendum vettvangi þegar hún spilaði á fullveldishátíð Íslendinga í Gautaborg í Svíþjóð, og á næstu árum lék hún m.a. í Osló, Kaupmannahöfn, Luxemborg, Costa del Sol, Stokkhólmi og víðar. Sveitin fékkst því við hin fjölbreytilegustu verkefni og lék einnig á stórum bæjar- og útihátíðum s.s. Vor í dal í Þjórsárdalnum, Húnavöku (þar sem hún lék margsinnis), Svartsengishátíð, Húnaveri og jafnvel Þjóðhátíð í Eyjum. Sveitin hlaut þó líklega mestu athyglina þegar hún kom fram í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins sumarið 1974, þó við mismikla hrifningu landsmanna sem kunnu ekki allir að meta „lágmenninguna“, alltént hafði sveitin feikinóg að gera á þessum árum og lék allt upp í fjögur kvöld vikunnar þegar mest var.
Liðskipan hljómsveitarinnar hafði verið óbreytt síðan 1967 þegar Haukur gítarleikari hætti síðsumars 1974 en hann var um það leyti að taka við stjórn Samvinnuskólans á Bifröst í Borgarfirði, og það er kannski rétt að nefna í því samhengi að hann varð síðan liðsmaður hljómsveitarinnar Upplyftingar (sem starfaði um tíma á Bifröst) sem gaf út fyrrnefnda syrpu með laginu Lífsgleði sem nefnt er hér ofar. Hermann Jónsson gítarleikari tók sæti Hauks í tríóinu en einnig kom um það leyti inn í sveitina trommuleikari (og söngvari) að nafni André Bachmann en Kristinn trommuleikari hafði verið að glíma við gigt um tíma – Kristinn hætti þó líklega ekki í sveitinni alveg strax heldur virðast þeir hafa skipt með sér verkefnum eða jafnvel starfað sem kvartett um tíma.

Þorsteinn og félagar 1979
Þó hljómsveitin hafi ekki beinlínis verið hátt skrifuð hjá fjölmiðlamönnum þess tíma naut hún alþýðuhylli og fullt hafði verið út úr dyrum á dansleikjum hennar um árabil. Það kom að því að útgefandinn og umboðsmaðurinn Ámundi Ámundason sá sér hag í að gefa út breiðskífu með sveitinni en hann hafði þá nýlega gefið frá sér verkefnið Sumar á Sýrlandi með Stuðmönnum sem Steinar Berg tók að sér. Ámundi dreif sveitina í Hljóðrita í Hafnarfirði sem þarna var nýtekinn til starfa og þar hljóðrituðu þeir félagar þrettán laga plötu haustið 1976 sem kom svo út fyrir jólin undir titlinum Grásleppu Gvendur, eftir einu laganna. Sveitin var ekki alveg ein á ferð á plötunni því Magnús Kjartansson upptökustjóri fékk einnig nokkra þekkta hljóðfæraleikara til að leika inn á hana, þeirra á meðal voru Ragnar Sigurjónsson trommuleikari, Tómas M. Tómasson bassaleikari og Jakob F. Magnússon hljómborðsleikari sem um þetta leyti voru að fara af stað með Stuðmannatúr um landið en Tívolí-plata sveitarinnar var þá nýkomin út, og svo þeir Magnús Eiríksson og Baldur Már Arngrímsson sem um sama leyti voru að koma Mannakornum á koppinn.
Þrátt fyrir þetta einvala lið aðstoðartónlistarmanna má segja að poppskríbentar dagblaðanna hafi lagt sitt af mörkum við að kæfa plötuna með neikvæðni sinni en líklega hefur ein plata sjaldan eða aldrei í íslenskri tónlistarsögu verið rökkuð jafn mikið niður og Grásleppu Gvendur. Neikvæðastur var líklega blaðamaður Alþýðublaðsins sem m.a. sagði í gagnrýni sinni „… því lélegri hljómplata hefur vart komið á markað hér á landi um langt skeið. Þar fer allt saman: hörmulegur söngur, léleg spilamennska (þótt illar tungur segir að meðlimir hljómsveitarinnar hafi í fæstum lögunum spilað) og afburða leiðinlega útsetningar“. Gagnrýnendur Tímans og Vísis tóku í svipaðan streng sem og sá sem reit fyrir Dagblaðið en hann fann upp eins konar skammaryrði, hugtakið „grásleppurokk“ sem átti að skilgreina þennan arm brennivínstónlistarinnar.

Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar á níunda áratugnum
Þrátt fyrir þessa skelfilegu útreið hélt sveitin sínu striki, smekkur gagnrýnenda og hlustenda fór ekki saman hér frekar en oft áður og platan seldist ágætlega og m.a.s. þurfti að panta nýtt upplag af henni, lög eins og titillagið Grásleppu Gvendur, Kanarí og Ég fer í Sjallann fengu nokkra athygli auk þess sem á plötunni var að finna þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga 1976 – Vornótt í Eyjum, en það var í fyrsta sinn sem slíkt lag var gefið út sama ár. Sjálfsagt hefðu lögin lifað lengur ef þau hefðu ekki verið að keppa við sígilda stórsmelli Vilhjálms Vilhjálmssonar, Brimklóar, Lónlí blú bojs, Stuðmanna og Spilverks þjóðanna sem sendu frá sér ódauðlegar lög og plötur um sama leyti.
Hljómsveit Steina spil átti eftir að starfa í tíu ár eftir útgáfu Grásleppu Gvendar og gerði það gott á ballmarkaðnum áfram, sveitin lék um land allt eins og áður og flutti sitt grásleppurokk sem féll þrátt fyrir allt hvarvetna í góðan jarðveg þótt sveitin teldist aldrei í úrvalsdeild hljómsveita – stuðið minnkaði ekkert á böllunum og sveitin var full samkeppnisfær við hverja aðra stórsveit í poppinu þótt yfirbygging væri í lágmarki og ekki var verið að eyða stórfé í hluti eins og hljómsveitarútu, rótara, hljóðmenn, umboðsmenn og græjur.

Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar
Andre Bachmann hætti í sveitinni haustið 1979 og litlu síðar hætti Kristinn alveg að spila vegna gigtarinnar en við trommukjuðunum tók Grétar Magnús Guðmundsson (Tarnús), bróðir Hermanns gítarleikara, Magnús Rúnar Jónsson bættist einnig í hópinn og tók að sér að leika á bassa þannig að sveitin starfaði eftir það sem kvartett, Þorsteinn sem áður hafði leikið bassalínurnar á kordóvoxið gat nú leyft sér í auknum mæli að grípa til saxófónsins en saxinn hafði þá verið á hliðarlínunni um nokkurn tíma. Þannig skipaðir léku Steini spil og félagar til ársins 1986 þegar hljómsveitarstjórinn tók þá ákvörðun að þetta væri orðið gott en þá hafði hann starfrækt hljómsveit sína samfleytt frá árinum 1963 og leikið á þúsundum dansleikja víða um land og utan þess.
Spilamennsku sveitarinnar var þó reyndar ekki alveg lokið því árið 1993 komu þeir félagar aftur saman og störfuðu í nokkra mánuði, léku þá á Fjörukránni sem þá var nýopnuð en í sveitinni voru þá að minnsta kosti þeir Þorsteinn og Grétar en ekki liggur fyrir hverjir aðrir skipuðu sveitina þá – en svo var sögu sveitarinnar líka alveg lokið.
Þess má svo geta að breiðskífan Grásleppu Gvendur var endurútgefin á geisladisk árið 1996 en þá voru liðin tuttugu ár frá útgáfu hennar á vínyl, við sama tækifæri var lögunum átta af smáskífunum tveimur bætt við svo úr varð 21 lags platan Steini spil frá Selfossi, gefin út af Spor sem þarna hafði eignast útgáfuréttinn.














































