Lista- og menningarhátíðin Bjartir dagar hafa verið haldnir í Hafnarfirði á vordögum allt frá árinu 2003 og þar kennir ýmissa grasa í öllum afkimum menningarinnar, myndlist, tónlist, leiklist og hvaðeina.
Tónlist hefur þ.a.l. verið ríkur þáttur í Björtum dögum og vorið 2006 þegar áhersla var m.a. lögð á þátttöku barna og unglinga í hátíðinni var haldin hljómsveitakeppni í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði en unglingahljómsveitir hafa reyndar lengi vel verið öflugar í bænum. Í keppninni var ungu tónlistarfólki gefinn kostur á að koma fram og keppa en hugsunin var fyrst og fremst að hljómsveitirnar myndu nýta sér þessa reynslu sína í framtíðinni heldur en að leggja áherslu á keppnina sem slíka.
Svo fór að hljómsveitin Royal fanclub sem reyndar kom úr Garðabæ, sigraði keppnina en sú sveit hafði þá þegar tekið þátt í Músíktilraunum og öðlast því nokkra reynslu á tónlistarsviðinu. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um úrslit hljómsveitakeppni Bjartra daga s.s. hvaða sveitir höfnuðu í öðru og þriðja sæti eða hversu margar hljómsveitir tóku þátt í keppninni, og sambærileg hljómsveitakeppni var ekki haldin aftur í tengslum við Bjarta daga.














































