Hljómsveitakeppnin Hraunrokk [tónlistarviðburður] (2006-12)

Frá Hraunrokki 2006

Hljómsveitakeppni var haldin í Hafnarfirði um nokkurra ára skeið fyrr á þessari öld, keppnin var haldin í nafni félagsmiðstöðvarinnar Hrauns og bar nafnið Hraunrokk en allar félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði stóðu líklega að keppninni.

Hraunrokk var að öllum líkindum haldin fyrst árið 2006 og sigraði þá hljómsveitin Fóbía, Própanól varð í öðru sæti og Fnykur hafnaði í því þriðja – ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margar sveitir tóku þátt í keppninni eða hvernig fyrirkomulag hennar var.

Ári síðar, 2007 var keppnin haldin öðru sinni en þá var fyrirkomulagið á þann veg að keppnissveitirnar fluttu eitt frumsamið lag og eitt til tvö önnur lög. Upplýsingar vantar um hversu margar sveitir tóku þátt en hljómsveitir Rúnir bar sigur úr býtum, Öldubandið lenti í öðru sæti og Mama Jam í þriðja sæti.

Engar upplýsingar er að finna um keppnina 2008 en árið 2009 var keppnin haldin í Bæjarbíói. Átta sveitir voru þá skráðar til leiks og sigraði Sound of Seclusion keppnina að þessu sinni, sigursveitin hlaut hljóðverstíma og eitthvað meira í verðlaun en ekki liggur fyrir hvaða sveitir höfnuðu einnig í verðlaunasætum.

Litlar upplýsingar finnast um Hraunrokk 2010 aðrar en að hljómsveitin Fusion factory sigraði það árið. Engar upplýsingar er hins vegar að finna um keppnina árið 2011 en árið 2012 voru þrjár þátttökusveitir, eða öllu heldur tvær hljómsveitir – Lucida og Salt and pepper, og svo Hafsteinn Þráinsson sem reyndar sigraði í það skiptið en Hraunrokk fór þá fram í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði. Þarna var fyrirkomulagið orðið á þann veg að keppendur fluttu tvö frumsamin lög og mátti heildartíminn ekki ná yfir tíu mínútur í flutningi.

Svo virðist sem keppnin hafi verið haldin í síðasta skiptið árið 2012 en frekari upplýsingar óskast um Hraunrokks hljómsveitakeppnina.