Hörður Jónsson (1953-2015)

Hörður Jónsson Strandamaður

Hörður Jónsson var alþýðutónlistarmaður sem bjó lengst af á Akranesi en var ættaður úr Árneshreppi á Ströndum og gekk því undir nafninu Hörður Strandamaður. Hann kom oft fram sem trúbador, samdi lög og texta og hluti þeirra kom út á plötu að honum látnum.

Hörður Jónsson var fæddur (vorið 1953) og uppalinn á Stóru-Ávík á Ströndum meðal tíu annarra systkina en fluttist á Skagann átján ára gamall þar sem hann bjó til ársins 1999, þegar hann flutti að Galtarvík á Hvalfjarðarströnd og bjó þar til æviloka.

Hann var menntaður trésmiður og starfaði einnig við sjómennsku um tíma en tónlistin var áhugamál. Ekkert liggur fyrir um tónlistarmenntun hans ellegar -kunnáttu en hann mun þó hafa leikið á gítar og kom oft fram sem trúbador á Akranesi. Hann var t.a.m. einn fjölmargra sem kom fram á frægum tónleikum á Jaðarsbökkum á Akranesi sumarið 1990 sem báru yfirskriftina Þyrlurokk, hann kom einnig oft fram einn með gítarinn á trúbadorakvöldum og víðar – og varð reyndar landsfrægur eina kvöldstund þegar hann tróð upp í sjónvarpsþættinum Á líðandi stundu árið 1986. Þá skemmti hann einnig á samkomum hjá Félagi Árneshreppsbúa í Reykjavík því hann sleit aldrei tengslum við upprunann. Hörður söng um tíma í karlakórnum Svönum á Akranesi og tók þátt í uppfærslu Tónlistarskólans á Akranesi á söngleiknum Sjóræningjunum frá Penzance (eftir Gilbert & Sullivan), svo dæmi séu nefnd.

Hörður samdi einnig lög og texta, tveir texta hans komu út á plötu sonar hans Geirs Harðarsonar – Landnám (2008), og Geir vann síðan með gamlar upptökur (frá 1993) með söng Harðar eftir andlát föður síns og bætti við lögum sem hann söng sjálfur (eftir Hörð) sem hann gaf út vorið 2023 á tólf laga plötu í nafni Harðar undir titlinum Mokaðu. Um það leyti hefði Hörður orðið sjötugur og var platan gefin út af því tilefni og um leið blásið til minningartónleika um hann á Akranesi en Hörður hafði látist sumarið 2015.

Efni á plötum