Hornafélag Keflavíkur (1910-14)

Lítil lúðrasveit starfaði í Keflavík á öðrum áratug síðustu aldar undir nafninu Hornafélag Keflavíkur en stofnandi og forsprakki þess var Vilhjálmur Kristinn Hákonarson kaupmaður.

Vilhjálmur hafði komið til Keflavíkur frá Ameríku árið 1908 þar sem hann hafði þá dvalið um nokkurt skeið og leikið með stórri lúðrasveit, hann hafði hug á að stofna til slíkrar sveitar í Keflavík og gerði það árið 1910 – heimildir segja ýmist að það hafi verið síðla vetrar eða um haustið. Eðlilega var slík sveit ekki ýkja fjölmenn í Keflavík á þeim tíma en stofnmeðlimir voru fimm og ekki liggur fyrir hvort einhver fjölgun var þar á í þau fjögur ár sem sveitin átti eftir að starfa. Meðlimir auk Vilhjálms voru þeir Ásgeir Magnússon, Einar Jónsson, Gunnar Árnason og Sigurgísli Guðjónsson, því miður eru ekki upplýsingar um hljóðfæraskipan sveitarinnar. Sveitin lék á nokkrum tónleikum í Keflavík, Garði og Höfnum meðan hún starfaði og hlaut hún einhverja fjárstyrki frá bæjaryfirvöldum auk þess sem bærinn sá þeim félögum fyrir æfingahúsnæði.

Hornafélag Keflavíkur starfaði til ársins 1914 en þá flutti Vilhjálmur frá Keflavík og starfsemi sveitarinnar lagðist niður, lúðrasveit var ekki stofnuð þar aftur fyrr en á sjötta áratugnum.