Hljómsveitin Hostile starfaði í nokkur ár upp úr síðustu aldamótum og lék á fjölmörgum tónleikum meðan hún starfaði, sveitin skildi eftir sig demósmáskífu með þremur lögum.
Hostile var stofnuð líklega 2004 en það ár hóf hún að koma fram á tónleikum um haustið. Sveitin lék rokk í þyngri kantinum en hér vantar upplýsingar um nánari skilgreiningu á tónlist hennar – og reyndar segir sagan að stefnubreyting hafi orðið á tónlist sveitarinnar meðan hún starfaði. Sveitin lék víða um höfuðborgarsvæðið meðan hún starfaði en undantekningalaust var það á tónleikum með fleiri rokksveitum af svipuðum toga, þannig lék hún margsinnis í Hellinum á Grandanum, Grand rokk og Bar 11 sem allt voru rokktónleikastaðir en einnig lék sveitin á stöðum eins og Celtic Cross og Cafe Amsterdam. Hostile kom ennfremur fram á þremur fyrstu Eistnaflugshátíðunum í Neskaupstað á árunum 2005 til 07. Sveitin sendi frá sér þriggja laga demó skífu árið 2007 og líklega er eitthvað meira efni til með henni hljóðritað.
Hostile mun á einhverjum tímapunkti hafa verið skipuð þeim Sigurjóni Sigurðssyni gítarleikara, Ármanni Guðmundssyni bassaleikari, Gyðu Hrund Þorvaldsdóttur gítarleikara, Elvari Erni Unnþórssyni trommuleikara og Michael James Annets söngvara en einhverjar mannabreytingar urðu á skipan sveitarinnar – e.t.v. í tengslum við ofangreinda stefnubreytingu, þannig mun Vilhelm P. Sævarsson gítarleikari hafa verið um tíma í sveitinni.
Hostile starfaði að minnsta kosti fram á haustið 2008 en frekari upplýsingar óskast um þessa sveit.














































