
Hrafnaspark
Hrafnaspark var svokallað Django djasstríó en tónlistin er kölluð svo eftir Django Reinhardt sem fyrstur kom fram með þá tegund gítardjass eða sígaunadjass eins og hún er einnig kölluð.
Sveitin var stofnuð vorið 2001 á Akureyri upp úr námskeiðum sem hið hollenska Robin Nolan trio hélt þar en þar var áhersla lögð á Django djassinn, meðlimir sveitarinnar voru þeir Ólafur Haukur Árnason gítarleikari, Pétur Ingólfsson kontrabassaleikari og Jóhann Guðmundsson gítarleikari.
Hrafnaspark hóf strax sumarið 2001 að koma fram á ýmsum tónlistarhátíðum og öðrum -viðburðum nyrðra og má hér t.a.m. nefna Django jazz festival á Akureyri og Blue north music festival á Ólafsfirði um sumarið og einnig á stöðum eins og Við pollinn og víðar, stundum í samstarfi við eistnesku söngkonuna Margot Kiis.
Tríóið starfaði áfram og var nokkuð áberandi næstu árin, það kom suður til Reykjavíkur árið 2002 og lék þá ásamt Robin Nolan trio á Kaffi Reykjavík og svo á Djasshátíðinni á Egilsstöðum en sveitin átti margoft eftir að leika á þeirri hátíð rétt eins og Django jazz festival á Akureyri næstu árin.

Hrafnaspark 2001
Þeir félagar fóru einnig oft í tónleikaferðir um landsbyggðina, léku á Sauðárkróki, Viking blue north music festival í Stykkishólmi, Hvammstanga, Ísafirði og víðar, og stundum með gestaleikara með sér s.s. Dan Cassidy fiðluleikara, Ingva Rafn Ingvason trommuleikara, sænska djassgítarleikarann Andreas Öberg, Grím Helgason klarinettuleikara og Unni Birnu Björnsdóttur fiðluleikara og söngvara.
Þegar sveitin kom suður til Reykjavíkur lék hún einkum á Rósenberg en á Akureyri voru staðir eins og Deiglan og Græni hatturinn höfuðvígi sveitarinnar. Sveitin lék töluvert oft í Edinborgarhúsinu á Ísafirði eftir 2010 en hún var ekki eins áberandi í spilamennskunni seinni áratuginn sem hún starfaði, tríóið hætti líklega störfum árið 2018 og hafði þá verið starfandi frá 2001.
Hrafnaspark sendi frá sér eina plötu meðan hún starfaði, sú plata kom út haustið 2006 og bar nafn sveitarinnar en Sögur útgáfa gaf hana út. Á plötunni var að finna þrettán lög úr ýmsum áttum en hún hafði verið hljóðrituð í Gröf á Höfðaströnd.














































