
Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson gegndi mikilvægu hlutverki í lúðrasveitastarfi Vestmannaeyinga um áratuga skeið, bæði sem tónlistarmaður og ekki síður í félagsstarfinu.
(Guðjón) Hreggviður Jónsson var fæddur í Vestmannaeyjum sumarið 1909 og kenndi sig við bæinn Hlíð í Eyjum. Hann var á unglingsaldri þegar hann hóf að leika með Lúðrasveit Vestmannaeyja sem starfaði á árunum 1925 til 1931 en hann lék líkast til á horn í þeirri sveit. Hann mun jafnframt hafa leikið á orgel og sög, og heimild hermir að hann hafi t.a.m. leikið á sög undir söng á þjóðhátíð Vestmannaeyja einhverju sinni.
Þegar Hreggviður giftist unnustu sinni snemma á fjórða áratugnum fluttu þau til Reykjavíkur þar sem hann nam bifvélavirkjun og starfaði við viðgerðir og sem bílstjóri. Hann gekk þá til liðs við lúðrasveitina Svaninn og starfaði með henni næstu árin, en þau hjónin bjuggu og störfuðu á höfuðborgarsvæðinu allt til 1937 þegar þau fluttu búferlum aftur til Vestmannaeyja.
Þegar Hreggviður kom aftur til Eyja hafði lúðrasveitarstarfið legið niðri um margra ára skeið en hann og Oddgeir Kristjánsson áttu stærstan þátt í að koma sveitarstarfinu á koppinn aftur árið 1939 og hefur sú sveit starfað alla tíð síðan. Hreggviður var strax formaður lúðrasveitarinnar og stjórnaði henni líklega einnig í upphafi ásamt Oddgeiri en síðan tók sá síðarnefndi við hljómsveitarstjórninni – Hreggviður átti hins vegar eftir að gegn formennsku í sveitinni allt til ársins 1967 en hætti þá eftir tæplega þriggja áratuga starf, hann var einnig stjórnandi lúðrasveitarinnar tímabundið eftir að Oddgeir lést snemma árs 1966, og þar til nýr stjórnandi Martin Hunger (Marteinn H. Friðriksson) tók við. Allan þann tíma sem Hreggviður var formaður lék hann einnig með lúðrasveitinni á túbu og svokallaðan súsafón, og reyndar lék hann með sveitinni allt til 1968 en þá flutti hann aftur til Reykjavíkur. Hann var síðar sæmdur æðsta heiðursmerki Lúðrasveitar Vestmannaeyja.
Hreggviður bjó á höfuðborgarsvæðinu til æviloka en hann lést síðla árs 1987, sjötíu og átta ára gamall.














































