Hrekkjusvín (1977)

Hrekkjusvínin Valgeir, Leifur og Pétur

Tónlistarhópur sem kallaðist Hrekkjusvín stóð að baki plötu sem oft hefur verið nefnd sem besta barnaplata sem komið hefur út á Íslandi, Hrekkjusvínin voru aldrei starfandi sem hljómsveit heldur aðeins sett saman fyrir þetta eina verkefni.

Það mun hafa verið vorið 1977 sem útgáfufyrirtækið Gagn og gaman (Páll Baldvin Baldvinsson) fékk þá Valgeir Guðjónsson, Leif Hauksson og Pétur Gunnarsson til að semja efni á barnaplötu en þeir tveir fyrst nefndu voru þá í vinsælum hljómsveitum, Valgeir í Spilverki þjóðanna og Stuðmönnum en Leifur í Þokkabót, Pétur hafði hins vegar árið á undan sent frá sér vinsæla skáldsögu – Punktur punktur komma strik og hafði komið sterkur inn sem ljóðskáld, m.a. sem einn af Listaskáldunum vondu. Spilverkið og Pétur höfðu aukinheldur starfað saman að leikritinu Grænjöxlum.

Þremenningarnir tóku til við að semja efnið á plötuna, barnaefni sem myndi einnig höfða til fullorðinna, ekki ósvipað plötu sem komið hafði út árið á undan með Olgu Guðrúnu Árnadóttur – Eniga meniga. Og úr varð þrettán laga plata þar sem Valgeir samdi megnið af lögunum, Leifur færri og Pétur sá um textana sem voru í anda þess nýraunsæis sem þá var ríkjandi í ljóðlist, skemmtilegar myndir úr hversdagslífi út frá sjónarhorni barnsins ekki ósvipað og Pétur hafði gert í Punktur punktur komma strik.

Þeir félagar fengu til liðs við sig félaga úr Spilverkinu og Þokkabót eins og Egil Ólafsson, Sigrúnu Hjálmtýrsdóttur (Diddú), Eggert Þorleifsson, Ingólf Steinsson og Magnús R. Einarsson (fyrrum meðlim Þokkabótar) en auk þess tónlistarfólk eins og Jóhönnu Þórhallsdóttur söngkonu, Ragnar Sigurjónsson trommuleikara o.fl.

Það er skemmst frá því að segja að þegar platan kom út um haustið 1977 undir nafninu Lög unga fólksins, sló hún samstundis í gegn og lög eins og Hvað ætlar þú að verða?, Sumardagurinn fyrsti og Sæmi rokk, öll sungin af Agli, Afasöngur og Grýla sungin af Valgeiri, Ekki bíl í flutningi Diddúar og Gestir út um allt, sungið af Jóhönnu slógu öll í gegn og hafa lifað með þjóðinni síðan þá, komið út á fjölmörgum safnplötum og verið gefin út í flutningi annarra listamanna. Umslag plötunnar, hannað af Steingrími Eyfjörð Kristmundssyni vakti einnig nokkra athygli en það hafði að geyma eins konar myndasögu í anda þess sem Sumar á Sýrlandi Stuðmanna hafði skartað tveimur árum fyrr. Jafnframt fylgdu bæði textablað og veggspjald með plötunni.

Í bókinni 100 bestu plötur Íslandssögunnar (2009) segir frá því að í Afasöng hafi textaerindi Péturs einungis verið tvö en þegar sungið var inn kom í ljós að við upptökurnar höfðu þrjú erindi verið leikin inn, Valgeir sem söng lagið spann því þriðja erindið á staðnum um það þegar afinn var rukkari og þar má heyra þessar óborganlegu línur; „þegar ég var rukkari, fór ég einu sinni suður… norður á Akureyri, dararalalalalalal […] hæ má ekki bjóða‘ ykkur brjóstsykur“.

Vinsældir plötunnar ættu ekki að þurfa að koma á óvart því fólkið sem kom að sköpun tónlistarinnar var hluti af stærri hópi sem var ótrúlega frjór og skapandi og sendi frá sér fjöldann allan af plötum og lögum á þessum árum sem hafa orðið að klassík.

Auglýsing fyrir Hrekkjusvín í Gamla bíói

Lög unga fólksins hlaut góða dóma í Þjóðviljanum og Norðurlandi og ágæta í Tímanum. Þess má geta að þegar fyrsta upplagið (2000 eintök) hafði selst upp var pantað nýtt upplag, 1000 eintök en þegar kom að því að leysa það úr tolli hafði útgáfufyrirtækið ekki fjármagn til þess og því fór svo að Guðrún Bachmann eiginkona Leifs, sem hafði þá nýlega fengið námslánin sín leysti plötuna út og bjargaði málunum.

Sem fyrr segir hefur platan Lög unga fólksins oft verið nefnd sem ein ef ekki besta barnaplata Íslandssögunnar og undantekningalaust hefur hún verið á listum tengdum slíkum pælingum, algengt er þó að fólki rugli lögum Hrekkjusvínanna við Spilverk þjóðanna enda eru sömu söngvarar og spilamennskan áþekk í mörgun þeirra – einnig hafa margir tengt Gestir út um allt við söngkonuna Diddú en það er reyndar Jóhanna Þórhallsdóttir sem syngur það lag.

Lög unga fólksins var ófáanleg um langt árabil eftir útgáfu plötunnar en hún kom ekki út á geisladiskaformi fyrr en undir lok aldarinnar, haustið 1998 þegar Skífan gaf hana loks út.

Það var svo haustið 2011 að nýstofnaður leikhópur, Háaloftið setti söngleikinn Hrekkjusvín á svið í Gamla bíói undir leikstjórn Maríu Reyndal en þau Guðmundur Brynjólfsson, Tinna Hrafnsdóttir og Sveinn Geirsson skrifuðu sögu utan um lögin – engin slík saga eða söguþráður hafði áður verið utan um textana þegar platan kom út á sínum tíma. Valgeir Guðjónsson var jafnframt fenginn sem tónlistarstjóri við leiksýninguna og hann stjórnaði fimm manna hljómsveit sem lék undir á sýningum, og samdi einnig þrjú lög til viðbótar. Platan Lög unga fólksins var í tilefni af þessu endurútgefin og -hljóðblönduð ásamt nýju lögunum en eldri lögin höfðu ekki verið endurunnin eða hljóðrituð aftur. Sýningin gekk í nokkrar vikur.

Efni á plötum