Hrólfur Vagnsson (1960-)

Hrólfur Vagnsson

Hrólfur Vagnsson frá Bolungarvík hefur starfað víða um lönd sem tónlistarmaður, upptökumaður og -stjóri, útgefandi, útsetjari og tónlistarkennari en lengst af í Þýskalandi. Hann hefur komið að útgáfu og upptökum mörg hundruð platna og nokkrar þeirra hafa komið út í hans nafni, þekktastur er hann þó e.t.v. hér á landi fyrir að vera fyrsti íslenski harmonikkuleikarinn til að nema klassískan harmonikkuleik.

Hrólfur er fæddur árið 1960 og er af þekktri tónlistarfjölskyldu í Bolungarvík, faðir hans lék á harmonikku og þrjú systkini hans, Haukur, Soffía og Pálína hafa starfað við tónlist – reyndar hafa systkinin öll sem eru sjö talsins gefið út plötur saman undir nafninu Vagnsbörn.

Hrólfur hóf að læra á harmonikku aðeins níu ára gamall hjá Ólafi Kristjánssyni (síðar bæjarstjóra í Bolungarvík), þegar unglingsárin tóku yfir tóku saxófónninn og hljómborðið yfir hjá honum og þá hóf hann að leika með ballhljómsveitum í heimabænum. Að loknu grunnskólanámi fór hann suður til Reykjavíkur í iðnnám og á þeim árum hélt harmonikkunám hans áfram fyrir sunnan, ekkert slíkt var í boði í Tónlistarskólanum í Reykjavík en hann nam þess í stað hjá Emil Adolfssyni sem kynnti honum hnappaharmonikkuna og möguleika hennar í klassískri tónlist en Hrólfur hafði fram að því leikið á svokallaða píanóharmonikku. Emil hvatti Hrólf til að nema klassískan harmonikkuleik og aðstoðaði hann við að finna skóla en því lyktaði með því að Hrólfur fór haustið 1981 til Hannover í Vestur-Þýskalandi til að nema tónlist við tónlistarháskólann þar.

Á námsárum sínum í Reykjavík hafði Hrólfur farið vestur á heimaslóðir á sumrin og leikið þá með ballhljómsveitum eins og Krosstré, Mímósa og Kan (sem var stofnuð vorið 1981) og kom reyndar líka eitthvað fram einn með skemmtara á jólatrésskemmtunum og slíku. Hann hélt því áfram meðan hann var við nám í Hannover, lék áfram með Kan en einnig með hljómsveitinni Prósent (m.a. ásamt systkinum sínum Pálínu og Hauki) og dúettnum Tríói Ólafs ósýnilega (með Pálínu). Þess má geta að hljómsveitin Prósent kom að gerð plötunnar með Smjattpöttunum sumarið 1984.

Hrólfur Vagnsson

Hrólfur lauk fyrst eiginlegu tónlistarnámi í Þýskalandi áður en hann fór í einleikaraprófið í klassískum harmonikkuleik en því námi lauk hann 1989 og varð fyrstur allra til að ljúka því námi við skólann og um leið auðvitað fyrstur Íslendinga til þess. Kennari hans í náminu var prof. Elsbeth Moser sem hann síðan giftist en hún varð fyrri eiginkona hans. Á þessum tíma lék hann nokkuð á tónleikum og í útvarpi ytra, s.s. í Þýskalandi, Sviss og Frakklandi, og reyndar hafði hann einnig leikið töluvert hér heima þegar hann kom til Íslands á sumrin og í jólafríum – þá yfirleitt í félagi við aðra tónlistarmenn sem hann hafði starfað með í Þýskalandi.

Þegar Hrólfur lék á tónleikum hér heima lagði hann vitanlega mesta áherslu á klassíska nálgun sína á harmonikkuleik enda hafði hann numið þau fræði, hins vegar var íslenska harmonikkusamfélagið ekki tilbúið fyrir þá nálgun því hér á landi hafði harmonikkan verið nær eingöngu því hlutverki að skemmta ballgestum þar sem polkar, rælar og valsar voru spilaðir út í eitt – því hlaut Hrólfur yfirleitt slaka aðsókn og neikvæð viðbrögð hjá íslenskum harmonikkuleikurum sem tengdu nikkuspil við léttmeti og húllumhæ en alls ekki við fágaða klassík. Svo langt gekk þetta að þegar Hrólfur hélt tónleika sem gestur á landsmóti harmonikkuunnenda árið 1990 að þá gekk hluti tónleikagesta út úr húsinu. Úr varð núningur milli Hrólfs og harmonikkusamfélagsins sem varð að hálfgerðu stríði þar sem hvor aðilinn fyrir sig sparaði ekki orðin í garð hins – Hrólfur gagnrýndi íslenska harmonikkuleikara einnig fyrir þröngsýni en þegar rykið hafði sest síðar viðurkenndu bæði Hrólfur og harmonikkuleikararnir að þeir hefðu gengið of langt, hann sagði t.a.m. síðar að hann hefði farið of geyst í að kynna íslenskum harmonikkuleikurum klassíkina og hefði betur blandað hana betur léttmeti – á sama hátt sögðust málsmetandi harmonikkuunnendur að þeir hefðu ekki verið tilbúnir fyrir klassíkina á þeim tíma og nánast hrakið Hrólf í burtu. Fullar sættir höfðu augljóslega orðið milli deiluaðila um aldamótin þegar lesendur tímaritsins Harmonikunnar kusu Hrólf í þriðja sæti yfir bestu harmonikkuleikara 20. aldarinnar á Íslandi – á eftir þeim Braga Hlíðberg og Gretti Björnssyni.

Hrólfur hafði samhliða námi sínu sinnt tónlistarkennslu en líkaði ekki starfið og sá ekki fyrir sér að starfa við slíkt hvorki í Þýskalandi né Íslandi, og stofnaði því eigið hljóðver í Hannover árið 1989 undir nafninu Vagnsson Tonstudio Hannover. Þar var strax feikinóg að gera og djasstónlistarmenn nýttu hljóðverið vel og þegar hann stofnaði einnig útgáfufyrirtækið CordAria (1991) hóf hann jafnframt að gefa út tónlist, einkum djass, klassík og svo harmonikkutónlist en hann var duglegur að gefa út hálfgert jaðarefni tónlistarmanna sem höfðu litla möguleika á útgáfu hjá stórum útgáfufyrirtækjum. Þá vann Hrólfur bæði með kvikmyndatónlist og auglýsingar í hljóðveri sínu.

Hrólfur með nikkuna

Fjölmargir Íslendingar störfuðu með Hrólfi í hljóðveri hans í Þýskalandi og þess má geta að óperusöngvararnir Kolbeinn Jón Ketilsson og Sólrún Bragadóttir hljóðrituðu efni og gáfu út hjá honum, sem og gamli tónlistarkennari Hrólfs frá Bolungarvík, Ólafur Kristjánsson, hér má einnig nefna barnaplötu með ungum bolvískum söngvurum, Magnúsi Má Einarssyni og Ástu Björk Jökulsdóttur árið 1990.

Hrólfur gaf út árið 1991 út plötu ásamt systkinum sínum undir nafninu Vagnsbörn, platan bar nafnið Hönd í hönd: uppáhaldslögin hans pabba en faðir þeirra Vagn Hrólfsson hafði látist af slysförum á sjó síðla árs 1990 – ágóðinn af sölu plötunnar rann til SVFÍ. Önnur plata með þeim systkinum kom út þremur árum síðar undir titlinum Vagg og velta með Vagnsbörnum að vestan og 1996 kom þriðja plata (mini diskur) þeirra systkina út undir nafninu Litli jóladiskurinn en Hrólfur samdi lögin á þeirri plötu. Plöturnar þrjár voru allar hljóðritaðar í hljóðveri Hrólfs, tvær fyrstu voru gefnar út af útgáfufyrirtæki þeirra systkina Septu en sú þriðja undir CordAria merki hans.

Nokkrar plötur komu einnig út með Hrólfi sjálfum, árið 1990 hafði komið út ellefu laga plata sem bar nafn hans en á þeirri skífu leikur hann ásamt samstarfsfólki sínu mestmegnis lög eftir aðra. Þar er þó einnig að finna frumsamið efni, Pálína systir hans syngur tvö laganna en annars eru meðspilararnir erlendir. Næst kom út plata Hrólfs og japanska fiðluleikarans Hiroto Yashima en þeir félagar störfuðu töluvert saman snemma á tíunda áratugnum og léku m.a. saman á tónleikum hér á landi – einnig héldu þeir tónleika saman m.a. í Japan. Litlar sem engar upplýsingar er að finna um þessa plötu. Hrólfur vann um það leyti einnig með kammersveitinni Flavian ensemble um skeið úti í Þýskalandi og kom sú sveit til Íslands 1992 og hélt hér tónleika, hugsanlega kom út plata með því samstarfi en frekari upplýsingar um það vantar. Plata kom svo út árið 1996 þar sem Hrólfur var sjálfur í aðal hlutverki, það var platan Dizzy fingers sem hann vann með þýskum félögum sínum en hún hafði að geyma standarda úr ýmsum áttum – hún hlaut mjög góða dóma í tímaritinu Harmoníkunni. Næsta plata í nafni Hrólfs kom út árið 2002 en þá plötu vann hann með hljómsveitinni Blue brasil og bar titilinn Hrólfur Vagnsson accordion & Blue brasil, hún hlaut góða dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í DV. Hrólfur hafði á þeim tímapunkti skilið við eiginkonu sína og var fluttur til Hamborgar þar sem hann rak nú hljóðver sitt (nú undir heitinu Tonstudio Vagnsson) og útgáfufyrirtækið en síðari eiginkona hans, Iris Kramer var meðlimur í Blue brasil sveitinni.

Hrólfur var alla tíð duglegur að heimsækja heimaland sitt og heimahagana fyrir vestan og kom hingað með reglubundnum hætti meðan hann bjó í Þýskalandi. Hér að framan eru einmitt nefnd nokkur dæmi um slíkt og oft hélt hann tónleika fyrir vestan og reyndar miklu víðar um land bæði með íslenskum og erlendu tónlistarfólki – eitt sumarið lék hann t.a.m. með systkinum sínum á sveitaböllum fyrir vestan. Reyndar tók Hrólfur einnig þátt í tónlistarverkefnum með íslensku tónlistarfólki erlendis, s.s. á Tónlistardögum Neðra-Saxlands í Þýskalandi árið 1996.

Hrólfur hafði búið í Hamborg frá árinu 2001 ásamt síðari eiginkonu sinni en var mikið á ferð og flugi í hljóðvinnslutengdri vinnu, m.a. var hann mikið í Tælandi við störf en á þeim tíma var hljóðverstæknin orðin með þeim hætti að auðvelt var að setja upp tæki og tól. Þetta var til þess að hann gat í raun búið þar sem honum sýndist og þegar eiginkona hans hreifst af kyrrðinni á Vestfjörðum í einni af Íslandsheimsóknum sínum ákváðu þau að flytja vestur í Bolungarvík árið 2006, þar áttu þau eftir að búa þó svo að Hrólfur væri svolítið á ferðinni starfs síns vegna.

Hrólfur Vagnsson

Þau hjónin tóku strax virkan þátt í tónlistarstarfinu fyrir vestan og haustið 2007 tók Hrólfur við starfi skólastjóra Tónlistarskólans í Bolungarvík og hóf að sinna kennslu. Hann starfaði við það í þrjú ár og sinnti öðrum tónlistarstörfum á sama tíma, samdi t.d. tónlist við leikrit, kom fram á Aldrei fór ég suður, var hljómsveitarstjóri í Dægurlagakeppni Vestfjarða og vann almenna hljóðversvinnu samhliða þessu öllu og tengt því samdi hann að mestu leyti tónlistina við kvikmyndina Mýrina, þá fóru þau hjónin í tónleikaferð um Vestfirði svo dæmi séu nefnd. Þá starfaði hann einnig með hljómsveitum vestra s.s. Grjóthruni í Hólahreppi og Ekki þjóðinni.

Árið 2010 var Hrólfur enn hlaðinn verkefnum erlendis og því hélt hann tvö heimili, annað í Bolungarvík og hitt í Hamborg og þannig hefur það verið síðustu árin að hann hefur búið meira og minna hérlendis yfir sumartímann þar sem hann hefur m.a. sinnt ferðaþjónustufyrirtæki sínu tengt læknisbústaðnum á Hesteyri en fjölskylda hans hefur rekið þar þjónustu fyrir ferðamenn. Hann hefur því mestmegnis alið manninn í Þýskalandi (og reyndar einnig Tælandi og miklu víðar) við tónlistarstörf yfir veturinn en einnig sinnt tónleikahaldi hér á landi þegar hann dvelst hér, hér má nefna tónleika með þýskri ungmennadjasssveit fyrir vestan 2014, tónleika á Suðurnesjunum 2023 og hádegistónleika í Fríkirkjunni 2024 svo fáein dæmi séu tekin.

Plötur tengdar Hrólfi hafa komið út síðustu áratugina, tónlistin úr Mýrinni kom út árið 2007 og árið 2013 kom út plata sem hann vann með Soffíu systur sinni í tengslum við tónlistarverkefni hennar sem kallaðist Trommur og töfrateppi en um var að ræða bók sem kennsluefni í tónlist fyrir börn, Hrólfur sá um hljóðfæraleik plötunnar. Og að lokum er hér nefndur ljóðadiskur, samstarf Hrólfs og leikarans (og Bolvíkingsins) Pálms Gestssonar – Gömul skip, ljóð eftir Þorstein frá Hamri sem Pálmi flutti við undirleik og tónlist Hrólfs, sú plata kom út 2012.

Hrólfur Vagnsson hefur komið að útgáfu líklega vel á annað þúsund platna sem upptökumaður, útsetjari, hljóðfæraleikari, upptökustjóri og útgefandi í gegnum tíðina en þær tölur eiga vafalaust enn eftir að hækka, ljóst er að nafn Hrólfs er mun stærra í alþjóðlegu samhengi en menn gera sér grein fyrir og þó svo að honum hafi ekki tekist að hrífa harmonikkuunnendur á sínum tíma með klassískum harmonikkuleik sínum þá hefur honum tekist að reisa sér minnisvarða um verk sín á öðrum vettvangi.

Efni á plötum