Hugarástand [2] (2002-07)

Hugarástand var nafn á hljómsveit sem starfaði í Vestmannaeyjum í upphafi aldarinnar, sveitin var skipuð tónlistarmönnum á unglingsaldri.

Hugarástand virðist hafa verið stofnuð haustið 2002 og lék mestmegnis í Eyjum en einnig eitthvað uppi á meginlandinu, hún kom t.a.m. oft fram á tónlistarhátíðinni Allra veðra von í Vestmannaeyjum en einnig á viðburðum tengdum goslokahátíðinni, segja má að toppnum hafi verið náð þegar sveitin lék á brekkusviði Þjóðhátíðar í Eyjum árið 2005. Þá var hún haustið 2005 meðal þátttökusveita í lagakeppni umboðsskrifstofunnar Gigg.is á Gauknum en engar upplýsingar er að finna um árangur þeirra Hugarástandsliða þar, þeir félagar léku tónlist sem skilgreind var sem sveitaballapopp með blöndu frumsamins efni.

Upplýsingar um meðlimi Hugarástands eru afar litlar, þó fyrir liggur að Rúnar Kristinn Rúnarsson var einn meðlimur sveitarinnar, hann kom inn í hana sem gítarleikari en varð síðan söngvari hennar. Óskað er eftir upplýsingum um aðra meðlimi Hugarástands, hljóðfæraskipan hennar og annað sem ætti heima í umfjölluninni.

Svo virðist sem sveitin hafi leikið síðast opinberlega þegar hún hitaði upp fyrir Á móti sól á húkkararballi Þjóðhátíðar 2007 – reyndar er heimild um hljómsveit með þessu nafn sem lék á Dillon sportbar í Hafnarfirði vorið 2009 en óvíst er hvort um sömu sveit er að ræða.