
Hugarró 2018
Tríóið Hugarró frá Akureyri kom fram á sjónarsviðið á öðrum áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar og virtist ætla að verða dæmigerð hljómsveit til að taka þátt í Músíktilraunum en lognast svo útaf, sveitin hélt hins vegar áfram störfum og hefur sent frá sér plötu.
Hugarró mun hafa verið stofnuð annað hvort 2016 eða 17 en kom fram á sjónarsviðið vorið 2018 þegar sveitin tók þátt í Músíktiltraunum, Hugarró var þá skipuð þeim Hinriki Erni Brynjólfssyni gítarleikara og söngvara, Haraldi Helgasyni bassaleikara og Ólafi Tryggvasyni trymbli. Tríóið lék tónlist sem skilgreind var sem pönkrokk, komst ekki í úrslit en þegar dómnefnd ákvað eftir á að hleypa tveimur auka hljómsveitum inn í úrslit keppninnar var Hugarró önnur þeirra – þeir félagar unnu þó ekki til verðlaun. Sveitin tók aftur þátt í Músíktilraunum vorið eftir (2019) og var að öllum líkindum skipuð sama mannskap, tríóið komst ekki áfram að þessu sinni en í umsögn um sveitina var hún sögð vera orðin grunge-kenndari en árið á undan.
Hljómsveitin var ekki áberandi í tónleikahaldi, að minnsta kosti eru ekki heimildir um að hún hafi leikið á tónleikum eða öðrum tónlistartengdum viðburðum hvorki norðan né sunnan heiða, hins vegar gaf Hugarró út sex laga plötu samnefnda sveitinni vorið 2020 (á Bandcamp) og þá hafði Fannar Smári Sindrason tekið sæti Ólafs trommuleikara en Hinrik og Haraldur voru á sínum stað.
Hugarró hefur lítið látið fyrir sér fara síðustu árin, sveitin lék á tónleikum í Hofi á Akureyri árið 2022 ásamt hljómsveitinni Miomantis en hefur síðan þá verið utan sviðsljóssins og hljóðritað efni. Sveitin sendi svo frá sér sína fyrstu breiðskífu vorið 2025 en hún bar nafnið Andvarp.














































