Hljómsveit sem bar hið sérstaka nafn Hugrakka brauðristin Max, var sprottin upp af unglingahljómsveit sem hafði starfað á Siglufirði á árunum 1988 til 1992, og hét þá einfaldlega Max.
Hljómsveitin Max var endurvakin eftir langt hlé árið 2009 og hlaut þá nafnið Hugrakka brauðristin Max, en ekki er ólíklegt að um sömu sveit sé að ræða og tók þátt í hljómsveitakeppni í Húnaveri um verslunarmannahelgina 1991 undir nafninu Hugrakka brauðristin en Max var einmitt þá ennþá starfandi.
Hugrakka brauðristin Max var skipuð þeim Hlöðver Sigurðssyni söngvara, Hilmari Elefsen gítarleikara, Rúnari Sveinssyni bassaleikara, Örvari Bjarnasyni hljómborðsleikara, Sveini Hjartarsyni trommuleikara og Pálma Steingrímssyni söngvara og gítarleikara en þeir höfðu allir verið liðsmenn Max á einhverjum tímapunkti. Sveitin hefur ekki starfaði óslitið frá 2009 heldur komið saman stöku sinnum og þá leikið á samkomum og dansleikjum tengdum Siglfirðingum s.s. á skemmtistöðum eins og Spot á höfuðborgarsvæðinu.














































