Hugsjón [3] (1989-92)

Hugsjón

Hljómsveitin Hugsjón var unglingahljómsveit sem starfaði í Keflavík í kringum 1990 en sveitin starfaði í nokkur ár, þó með hléum.

Hugsjón mun hafa verið stofnuð árið 1989 af þeim Einari Jónssyni gítarleikara og Jóni Ó Erlendssyni trommuleikara en fleiri gengu svo til liðs við sveitina í kjölfarið, mest voru sex meðlimir í Hugsjón en árið 1992 voru meðlimir hennar áðurnefndir Einar og Jón, auk Jóhönnu Harðardóttur söngkonu og Kristins J. Gallagher bassaleikara. Ekki eru upplýsingar um hina tvo meðlimina sem þá voru hættir. Jóhanna hafði þá nýlega borið sigur úr býtum í Hljóðnemanum, undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjunum en hún hafnaði svo í þriðja sæti aðalkeppninnar.

Hugsjón var nokkuð virk árið 1992 en virðist hafa hætt störfum síðla árs – um það leyti lék sveitin á rokktónleikum í Grindavík og var reyndar þar kölluð Hljómsveit Jóhönnu Harðardóttur.