
Huldubörn
Huldubörn var söngsveit/hljómsveit í Ólafsvík sem lengst af var skipaður systkinunum Sigurði Kr. Höskuldssyni og Erlu Höskuldsdóttur en nafnið kemur til af því að móðir þeirra hét Hulda (Anna Kristjánsdóttir).
Huldubörn komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 2008 þegar þau Sigurður og Erla skemmtu á sjómannadagsskemmtun í Ólafsvík og síðar sama sumar einnig á Ólafsvíkurvöku en þau fluttu frumsamið efni. Þau störfuðu ekki samfleytt heldur komu fram stöku sinnum undir því nafni en sumarið 2013 sendu þau frá sér plötuna Um sumarmál þar sem Sigurður samdi öll lög plötunnar en textana orti Bragi Jónsson. Um sama leyti fóru Huldubörn til Þýskalands ásamt nokkrum öðrum Ólsurum til að vera við opnun myndlistarsýningar þýska myndlistarmannsins Peter Lang en sá hafði verið í Ólafsvík árið á undan og málað heilmikið á Snæfellsnesinu, auk þess skartaði umslag plötunnar mynd eftir Lang. Huldubörn fluttu tónlistaratriði við opnun sýningarinnar en kom auk þess fram á fáeinum stöðum öðrum í Þýskalandi, um haustið héldu þau svo útgáfutónleika heima í Ólafsvík og komu eitthvað meira fram á heimaslóðum.
Árið 2015 kom út önnur plata Huldubarna en að þessu sinni voru fleiri systkini þeirra viðloðandi útgáfuna því Grétar, Magnús og Valur Höskuldssynir sungu allir á plötunni með þeim Sigurði og Erlu, auk Sigurðar H. Stefnissonar. Plötunni var eitthvað fylgt eftir með tónleikahaldi um sumarið en eftir það hefur lítið farið fyrir Huldubörnum og óvíst er hvort þau starfa ennþá.














































