
Huldumenn
Hljómsveitin Huldumenn starfaði um hríð í kringum 2020 en sveitin var eins konar framhald af Gildrunni eins og liðsmenn hennar sögðu sjálfir, sveitin sendi frá sér eina plötu.
Huldumenn komu fram á sjónarsviðið snemma árs 2019 og voru meðlimir sveitarinnar þeir Birgir Haraldsson söngvari og gítarleikari, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari, Birgir Nielsen trommuleikari, Ingimundur Óskarsson bassaleikari og Jóhann Ingvason hljómborðsleikari. Þeir Birgir og Sigurgeir höfðu verið liðsmenn hljómsveitarinnar Gildrunnar og vildu meina að þessi nýja sveit væri eins konar framhald af þeirri sveit enda ber hún nafn fyrstu plötu Gildrunnar.
Huldumenn fóru á fullt skrið árið 2019 og sendu frá sér efni, léku á sjómannadaginn í Vestmannaeyjum og svo einnig á Þjóðhátíð síðar um sumarið auk þess að koma fram í nokkur skipti til viðbótar s.s. í Grindavík og Patreksfirði.. Þeir félagar unnu að plötu sem kom svo út snemma árs 2020 undir titilinum Þúsund ára ríkið en um svipað leyti og hún kom út skall Covid heimsfaraldurinn á af fullum þunga svo ekki varð eins mikið úr eftirfylgni plötunnar, útgáfutónleikar voru þó haldnir fyrir fullu húsi í Hlégarði í Mosfellsbæ og eitthvað lék sveitin í kjölfarið á fleiri stöðum en líkast til varð heimsfaraldurinn til þess að sveitin varð ekki langlífari en svo.














































