
Hunangstunglið 1988
Hunangstunglið eða Geiri Sæm og Hunangstunglið eins og hún var upphaflega kölluð var sett saman í tengslum við útgáfu sólóplötu Ásgeirs Sæmundssonar (Geira Sæm) – Fíllinn, sem kom út haustið 1987. Sveitin starfaði svo áfram og kom að næstu plötu Geira sem einnig kom út í nafni hljómsveitarinnar.
Hunangstunglið var stofnuð sumarið 1987 og höfðu meðlimir hljómsveitarinnar allir komið við sögu á sólóplötu Ásgeirs en meðlimir hennar voru þeir Kristján Edelstein gítarleikari, Þorsteinn Gunnarsson trommuleikari og Kristinn Þórisson stick-leikari (strengjahljóðfæri) auk Ásgeirs sem söng. Hún kom þó ekki fram opinberlega fyrr en platan hafði komið út og þá hafði Styrmir Sigurðsson hljómborðsleikari bæst í hópinn en hann hafði ekki verið á plötunni, sveitin lék í Lækjartunglinu og Casablanca og vakti nokkra eftirtekt enda hafði þá eitt laganna, Rauður bíll notið vinsælda.
Um vorið 1988 var Hunangstunglið fengið til að hita upp fyrir Boy George (úr Culture club) á tónleikum í Laugardalshöllinni og það styrkti vinsældir sveitarinnar sem þótti ferskt innlegg í eitís flóruna, og litlu síðar var hún einnig meðal sveita sem hituðu upp fyrir Blow monkeys á Listapopp-tónleikunum í Höllinni.

Hunangstunglið
Um sumarið unnu Geiri Sæm og Hunangstunglið að nýrri plötu sem átti að koma út um haustið, heimildir eru svolítið misvísandi um hvað gerðist um sumarið en þar segir m.a. að sveitin hafi leyst upp og ný sveit stofnuð upp úr henni undir sama nafni á meðan aðrar heimildir nefna ekkert slíkt. Alltént kom platan út í nafni Geira Sæm og Hunangstunglsins um haustið (1998) og bar heitið Er ást í tunglinu?, platan fékk mikla athygli og lög eins og titillagið (Er ást í tunglinu?) og Froðan urðu feikivinsæl. Þegar sveitin fylgdi plötunni eftir voru meðlimir hennar Ásgeir, Kristján og Þorsteinn sem fyrr í henni og svo Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hljómborðsleikari og Skúli Sverrisson bassaleikari, sem báðir höfðu komið við sögu á fyrri plötunni (og þeirri nýju) en þeir höfðu allir fyrir utan Kristján gítarleikara verið í hljómsveitinni Pax Vobis nokkru fyrr.
Sveitin starfaði áfram árið 1989 en var ekki endilega áberandi í spilamennsku, hún var þó meðal sveita sem komu fram á rokkhátíð í Húnaveri um verslunarmannahelgina og birtist einnig í söfnunarþætti í Ríkissjónvarpinu um bætta umferðarmenningu – jafnframt kom út lag með sveitinni um sumarið á safnplötunni Bjartar nætur, það lag hét Dimma limm en vakti enga athygli.
Um þetta leyti var Geiri farinn að vinna að því ljóst og leynt að reyna fyrir sér erlendis í tónlistinni og 1990 fór orkan að mestu í það verkefni, þeir félagar fóru til Bretlands og tóku þar upp efni og um haustið voru settir upp tónleikar í Casablanca fyrir útsendara A&M útgáfufyrirtækisins þar sem sveitin var skipuð þeim Ásgeiri, Kristjáni, Styrmi, Þórði Guðmundssyni bassaleikara og Halldóri Gunnlaugi Haukssyni (Halla Gulla) trommuleikara auk bakraddasöngkonum. Ekki er alveg ljóst hvernig dæmið var sett upp en svo virðist sem þetta hafi verið hugsað sem dúett Ásgeirs og Kristjáns gítarleikara en þeir myndu fá með sér aðstoðarmenn eftir þörfum – sveitin hafði þá fengið nafnið Moonbus fyrir erlenda markaðinn. Sveitin spilaði töluvert um haustið og eitthvað var skipan hennar breytileg sem styður kenninguna um dúettinn, Kristján Valdimarsson (Kjartan Valdemarsson er einnig nefndur) hljómborðsleikari og Hafþór Guðmundsson trommuleikari voru t.a.m. í einhverri útgáfu sveitarinnar. Af einhverjum ástæðum varð ekki frekar úr þessum meikdraumum þrátt fyrir að gefið hefði verið út að útsendarar A&M hefðu hrifist af sveitinni, Geiri sendi frá sér nýja plötu 1991 en Hunangstunglið var þar hvergi nærri – sveitin hvarf því af sjónarsviðinu en birtist svo löngu síðar á dagskrá Menningarnætur sumarið 2016, og starfaði í smátíma um haustið eftir það.














































