
Hljómsveitin Gautar að leika fyrir dansi á Húnavöku 1965
Húnavaka var eins konar menningarhátíð sem haldin var í Austur-Húnavatnssýslu (síðar Húnaþingi) en hún var mikilvægur partur af menningarlífi Húnvetninga um árabil þegar skemmtanir voru af skornum skammti, hátíðina sóttu þúsundir gesta og komu þeir víða að.
Heimildir eru nokkuð misvísandi um hvenær Húnavaka var fyrst haldin, flestar heimildir herma að hátíðin hafi fyrst verið haldin vorið 1948 og árið 1973 var haldið upp á 25 ára afmæli hennar en hún á sér líklega nokkurra ára lengri forsögu – þar er hún ýmist sögð hafa verið sett á laggirnar 1944 eða 1945 en það hefur líklega verið hátíð í einhverri mynd sem síðar var formlega stofnað til af Ungmennasambandi Austur-Húnvetninga árið 1948 með Sæluviku Skagfirðinga sem fyrirmynd.
Húnavakan var haldin snemma á vorin og stóð yfir í um viku tíma hvert sinn, í upphafi voru samgöngur ennþá fremur erfiðar einkum á norðanverðu landinu og skemmtanir því fremur fátíðar og því var það kærkomin upplyfting að fá slíka samkomu á vorin en hún var haldin á Blönduósi, fyrstu árin á Hótel Blönduósi en þegar félagsheimilið á Blönduósi kom til sögunnar á fyrri hluta sjöunda áratugarins varð það hús aðalvettvangur Húnavöku.

Húnavaka félagsheimilinu Blönduósi
Leik- og tónlist skipaði alltaf stóran sess í dagskrá Húnavöku en einnig má segja að fræðsluerindi og kvikmyndasýningar hafi sett svip sinn á hana enda var yfirskrift hennar að minnsta kosti framan af „fræðslu- og skemmtivika“. Tónleikar og dansleikir voru því einnig stór hluti af dagskránni og þó að heimamenn legðu áherslu á að sjá sjálfir um fræðsluna og skemmtiatriðin voru gjarnan einnig fengnir „að sunnan“ landsþekktir skemmtikraftar og tónlistarfólk s.s. Guðmundur Jónsson óperusöngvari, Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson dægurlagasöngvarar svo dæmi séu nefnd en oft voru heimamenn eða nærsveitungar sem sáu um ballspilamennsku tengdri Húnavöku – lengi vel voru haldnir dansleikir öll kvöldin. Hér má nefna hljómsveitir eins og Ósmenn frá Blönduósi og Hljómsveit Geirmundar úr Skagafirðinum.
Frá og með árinu 1960 var gefið út blað sem einnig hlaut nafnið Húnavaka en það var það sem síðar hefur verið kallað héraðsrit, blaðið kom út árlega og var þéttskipað fræðslu-, frétta- og menningarefni úr héraðinu og kemur ennþá út í dag.
Húnavaka var haldin að öllum líkindum öll árin frá 1948 til 1999 með þeirri undantekningu að hún féll niður 1949 vegna flensufaraldurs sem þá gekk yfir sýsluna. Hátíðin lengdist í annan endann og var um tíma níu til tíu daga hátíð en þegar leið á tíunda áratug aldarinnar var farið að fjara heldur undan henni og undir lokin var um að ræða einhverja menningardagskrá yfir helgi, t.a.m. kóratónleikar og svo dansleikur á eftir, þar til að hún lognaðist að endingu útaf undir lok aldarinnar en síðasta Húnavakan í þeirri mynd var haldin vorið 1999. Þá hafði verið umræða um að færa hátíðina nær sumrinu þegar veður og færð væru orðin skaplegri.
Húnavaka var svo endurvakin í töluvert breyttri mynd nokkrum árum síðar þegar bæjarhátíðin Húnavaka kom fram á sjónarsviðið.














































