Hver [1] (1976-81)

Hver frá Akureyri

Hljómsveitin Hver frá Akureyri á sér nokkuð merkilega sögu en hún starfaði um fimm ára skeið og þróaðist á þeim tíma úr því að vera skólahljómsveit yfir í ballsveit sem lagði áherslu á sálartónlist, Hver varð aldrei mjög þekkt enda sendi sveitin einungis frá sér eina smáskífu en átti hins vegar þátt í því að koma þremur söngkonum fram á sjónarsviðið.

Hver mun hafa verið stofnuð innan Menntaskólans á Akureyri haustið 1976 og varð þá eins konar skólahljómsveit þar. Heimildir herma að í byrjun hafi meðlimir sveitarinnar verið Bakkfirðingarnir Baldur Pétursson hljómborðsleikari og Hilmar Þór Hilmarsson söngvari og gítarleikari, Leifur Hallgrímsson bassaleikari og Þórhallur Kristjánsson gítarleikari úr Mývatnssveit og Jón Sigurjónsson trommuleikari en sá síðastnefndi var Vopnfirðingur.

Hljómsveitin kom fyrst fram á skólaballi ásamt hljómsveitinni Celsius sem m.a. skartaði ungri söngkonu, Helgu Möller. Ekki er ólíklegt að það hafi kveikt hugmyndina um að bæta við söngkonu í hljómsveitina því vorið 1977 höfðu þrjár slíkar bæst í hópinn, nöfnurnar Erna Gunnarsdóttir og Erna Þórarinsdóttir og Eva Ásrún Albertsdóttir, og þar með var Hver orðin að átta manna sveit. Sveitin hafði þá um veturinn spilað töluvert á dansleikjum, bæði innan skólans og einnig utan hans og í viðtali við sveitina kom fram að hún hefði leikið á 15-17 dansleikjum um veturinn, m.a. í Dynheimum og Sjallanum á Akureyri.

Hver 1978

Um haustið urðu þær mannabreytingar í Hver að Steingrímur Óli Sigurðsson tók við trommunum af Jóni og var skipan sveitarinnar óbreytt veturinn á eftir. Hún kom fram í spurningaþættinum Menntaskólar mætast í Ríkissjónvarpinu um vorið 1978 og var nú farin að vekja athygli utan MA, um það leyti má segja að Hver hafi slitið sig alveg frá skólanum og var þá komin inn á almenna ballmarkaðinn um sumarið.

Sveitin lék þá töluvert á austanverðu landinu enda var kjarni sveitarinnar frá norðausturhorninu en einnig mikið fyrir norðan, m.a. um verslunarmannahelgina á Laugum og á útihátíðinni Einni með öllu á Melgerðismelum í Eyjafirði í byrjun júlí 1978 – þar var líka vinsælasta hljómsveit landsins, Brunaliðið sem hafði um það leyti sent frá sér plötuna Úr öskunni í eldinn sem m.a. hafði að geyma stórsmellinn Ég er á leiðinni. Söngkonurnar Erna, Eva og Erna tóku lagið með Brunaliðinu og svo aftur um verslunarmannahelgina á Rauðhettu-hátíðinni við Úlfljótsvatn en Hver var þar hvergi nærri. Þannig má segja að Brunaliðið hafi smám saman „stolið“ söngþrennunni frá sveitinni og um haustið komu þær einnig fram á jólatónleikum Brunaliðsins og svo á tóbaksvarnarplötunni – Burt með reykinn í byrjun árs 1979.

Hver ásamt Arnheiði Ingimundardóttur

Þær stöllur voru þá ennþá söngkonur Hver og sungu inn á tveggja laga plötu sveitarinnar sem hljóðrituð var vorið 1979 í Hljóðrita undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar Brunaliðsmanns en sögðu að því búnu skilið við sveitina og gengu endanlega til leiks við Brunaliðið og urðu síðar þekktar söngkonur, bæði saman sem þríeykið Erna – Eva – Erna, og í sitthverju lagi.

Eitthvað fór minna fyrir Hver í framhaldinu, tafir urðu útgáfu smáskífunnar þar sem upplagið var meira og minna ónýtt og þurfti að fá nýtt upplag til landsins, platan kom loks út um haustið en hefði átt að koma út snemma sumars. Þeir Hver-liðar fengu nýja söngkonu til liðs við sig um sumarið, Arnheiði Ingimundardóttur frá Húsavík og hún söng með þeim í nokkra mánuði áður en sveitin lagðist í stuttan dvala um haustið, um sumarið var spilað víða um land og einnig fór sveitin og lék í Færeyjum – og lék reyndar einnig um borð í Smyrli á leiðinni þangað.

Hver og Susan Causey

Á meðan Hver var í pásu um haustið 1979 fóru þrír liðsmenn sveitarinnar til Bandaríkjanna m.a. til að kynna sér hljóðtækni, þar dvöldust þeir um hríð bæði á austur- og vesturströndinni, og komu m.a. fram í nafni sveitarinnar á Íslendingahátíð í Los Angeles. Ferðin var sveitinni einnig til happs því þangað sóttu þeir félagar söngkonu sem þeir réðu til að syngja með sér næsta sumar á eftir (1980) en hún hét Susan Causey og hafði m.a. starfað með tónlistarfólki eins og Stevie Wonder og Arethu Franklin. Susan þessi hafði kröftuga soulrödd en það sem þótti þó fréttnæmast við komu hennar hingað til lands var hörundslitur hennar því fjölmiðlar fjölluðu aðallega um að hún væru blökkusöngkona eða þeldökk.

Þegar Susan kom til landsins snemma sumars fór Hver í sumartúr um landið og lék nú á dansleikjum bæði sunnan- og norðanlands, og meðal annars var sveitin á stórdansleikjum í Árnesi um verslunarmannahelgina þar sem fyrri söngkonur sveitarinnar, Erna, Eva og Erna komu einnig fram með sveitinni. Tónlist sveitarinnar var nú orðin öllu fönk- og sálarkenndari og um tíma var jafnvel talað um að fjölgað yrði í henni – væntanlega hefur þá fyrst og fremst verið að tala um að bæta við blásurum þannig að sveitin yrði jafnvel tíu manna, af því varð þó ekki. Hver lauk svo sumartúr sínum með því að leika á höfuðborgarsvæðinu áður en Susan fór til síns heima. Hún átti svo síðar eftir að syngja á plötu Jakobs Frímanns Magnússonar – Jack Magnet (1981) en Jakob hafði einmitt komið þeim í samband við söngkonuna.

Hljómsveitin Hver 1981

Eftir þennan sumartúr virðist Hver hafa lagst í dvala um veturinn 1980-81 en hún var svo endurreist í mars 1981 á höfuðborgarsvæðinu nokkuð breytt, þá voru þeir Þórhallur hljómborðsleikari, Leifur bassaleikari og Hilmar Þór gítarleikari enn í sveitinni en í stað Steingríms og Baldurs voru nú komnir Eyjólfur Jónsson trommuleikari og Hjörtur Howser hljómborðsleikari. Þannig skipuð lék Hver fram á mitt sumar en þá hvarf Hjörtur til náms í Bandaríkjunum, og líklega hætti sveitin endanlega störfum í kjölfarið, hún hefur þó eitthvað komið aftur fram í seinni tíð.

Efni á plötum