Útgáfufyrirtækið Hvísl ehf. hefur verið starfrækt frá árinu 2009 hið minnsta en nokkrar plötur hafa komið út undir merkjum útgáfunnar.
Fyrsta platan sem kom út á vegum Hvísls var með hljómsveitinni CCReykjavík og bar titilinn 1967 en sú skífa hafði að geyma útgáfunúmerið CCR002, allar plötur sem síðan hafa verið gefnar út undir merkjum Hvísls hafa hins vegar borið útgáfunúmerin Hvísl ehf. 002 o.s.frv. en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa gítarleikarann Sigurgeir Sigmundsson innanborðs en hann er einmitt á bak við útgáfufyrirtækið. Aðrar plötur sem komið hafa út í nafni Hvísls ehf. eru með hljómsveitunum Gildrunni, Klaufum og Huldumönnum, auk þess sem Sigurgeir hefur gefið út sólóplötu í eigin nafni undir merkjum útgáfunnar.














































