Hymnodia Sacra [annað] (1742)

Blaðsíða úr Hymnodia Sacra

Hymnodia Sacra er pappírshandrit sem geymir merkilegar heimildir um tónlistarsögu Íslands á 18. öld, um er að ræða sálmahandrit með nótum en margir sálmanna eru hvergi varðveittir annars staðar.

Það var séra Guðmundur Högnason (1713-95) sem ritaði handritið árið 1742 en hann var um það leyti að taka við prestsembætti í Kirkjubæ í Vestmannaeyjum. Guðmundur safnaði handritum og nótum, og skráði alls 256 sálma í handrit sitt sem hann nefndi Hymnodia sacra, um hundrað þeirra voru með nótum sem hann skrifaði sjálfur og hafði þá augljóslega til þess þekkingu. Handritið sendi Guðmundur síðan norður á Hóla í Hjaltadal til prentunar, þar gafst hins vegar ekki tóm til þess og lá handritið því óprentað lengi vel.

Handritið sýnir glögglega hvað sungið var við messur á Íslandi á 18. öld, og er því mikilvæg heimild um tónlistarsögu okkar Íslendinga. Fljótlega eftir þetta varð eins konar rof í íslenskri sönghefð þegar íslenska sönglagið hvarf af sjónarsviðinu – erlend lög bárust hingað frá Evrópu og tóku yfir sönglagahefðina sem hér hafði verið og reyndar gerðu menn sitt í að útrýma henni sjálfir þar eð þeim þóttu íslensku lögin lítt merkileg – og það var ekki fyrr en löngu síðar að menn hófu íslenska sönglagið (þjóðlögin) upp til vegs og virðingar á nýjan leik. Síðari tíma sérfræðingar sem kynnt hafa sér sálmana hafa fundið hliðstæður með sumum þeirra víða annars staðar í Evrópu en margir þeirra eru hvergi varðveittir nema í þessu handriti og eru því hugsanlega alíslenskir, sumir sálmanna gætu jafnvel verið samdir af Guðmundi sjálfum en það verður aldrei vita.

Með tíð og tíma hafa menn áttað sig á hversu mikið gull er hér að finna og margir sálmanna hafa verið dregnir fram í sviðsljósið í seinni tíð, ýmist í þeim útsetningum sem eru í handritinu eða þeir verið útsettir á nýjan leik. Þannig hafa þeir verið fluttir á tónleikum af kórum og tónlistarhópum eins og Gradualekór Langholtskirkju, Mótettukórnum, Spilmönnum Ríkínis, Nordic Affect og Kammerkórnum Carminu en þau síðast töldu hafa einmitt gefið út plötu samnefnda handritinu – Hymnodia Sacra, sem hefur að geyma 23 sálma úr því. Platan kom út árið 2010 og hlaut góðar viðtökur og dóma bæði hér heima og erlendis, og var reyndar kjörin plata ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2011. Þess má geta að stjórnandi kórsins á plötunni var Árni Heimir Ingólfsson, einn helsti sérfræðingur Íslands í tónlistarsögu fyrri alda.

Fleiri hafa flutt lögin úr Hymnodia Sacra á plötum, fyrst til þess voru líklega Þrjú á palli sem árið 1971 gáfu út jólaplötuna Hátíð fer að höndum ein, þar er að finna jólasálmana Immanúel oss í nátt og Frábæra-bæra, sem útsett voru af Jóni Sigurðssyni bankamanni. Meðal annarra sem flutt hafa sálmana úr Hymnodia Sacra á plötum má nefna Hamrahlíðarkórinn, Kvennakór Reykjavíkur o.fl.

Efni á plötum