Söngfélag Vopnafjarðar starfaði með hléum um ríflega áratugar skeið á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar, heimildir eru um söngstarf á Vopnafirði árið 1968 og er líklegt að þá hafi félagið starfað undir leiðsögn Árna Ingimundarsonar sem kom reglulega frá Akureyri til að kenna söng. Árið 1972 tók Haukur Ágústsson við söngstjórninni og starfaði söngfélagið þá líklega nokkuð óslitið til ársins 1980, oft í samstarfi við leikfélagið sem Haukur var einnig viðloðandi. Haukur hélt svo utan um verkefni þjóðhátíðarárið 1974 sem laut að söng í héraðinu í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar en hann stjórnaði þá kór sem kallaður var Samkór Vopnafjarðar og var uppistaðan úr þeim kór sjálfsagt komin úr söngfélagi Vopnafjarðar. Söngfélag Vopnafjarðar hélt tónleika einu sinni til tvisvar á ári.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um þennan kór.














































