Söngfélagið Harpa [1] (1862-93)

Söngfélagið Harpa vorið 1975

Söngfélagið Harpa (hið fyrsta) á sér nokkuð flókna sögu en strangt til tekið er um að ræða þrjá kóra sem störfuðu nokkuð samfleytt í rúmlega þrjá áratugi, fyrsti kórinn var nafnlaus og starfaði á árunum 1862-72, næst tók við Söngfélag í Reykjavík sem starfaði 1872-75 og síðan hið eiginlega Söngfélagið Harpa sem starfaði á árunum 1875-93. Í seinni tíð hafa allir kórarnir þrír verið kallaðir Söngfélagið Harpa sem er líklega rangnefni, t.d. er hvergi að finna umfjallanir í dagblöðum um Hörpu fyrir 1875. Þá er rétt að geta þess að í mörgum heimildum er söngfélagið sagt vera karlakór sem er rétt að vissu leyti en árið 1884 voru konur einnig gjaldgengar í hann og voru líklega þar til hann hætti störfum – og varð þar með fyrsti blandaði kór Íslands.

Söngfélagið var stofnað árið 1862 og telst með réttu vera annar kórinn sem starfaði á Íslandi, Söngfélag Latínuskólans hafði verið stofnað 1854 og stofnandi þessa nýja félags, Jónas Helgason má með réttu telja frumkvöðul í söngmálum á Íslandi ásamt Pétri Guðjohnsen sem einmitt stofnaði söngfélagið við Latínuskólann. Kórinn virðist ekki hafa hlotið neitt opinbert heiti fyrstu árin og gekk gjarnan undir nafninu Söngfélag Jónasar Helgasonar eða eitthvað slíkt, um var að ræða karlakór og voru flestir meðlimir hans iðnaðarmenn en eftir því sem árin liðu voru þar söngmenn úr öllum starfsstéttum.

Ekki liggur fyrir hvers vegna nýr kór var stofnaður upp úr þeim fyrsta árið 1872, sex söngmenn úr gamla kórnum héldu áfram með þeim nýja sem hlaut nafnið Söngfélag í Reykjavík en sá kór starfaði í um þrjú ár undir því nafni. Þar er í raun um að ræða annan kór og er sér umfjöllun um hann á Glatkistunni.

Vorið 1875 urðu hins vegar aftur tímamót í sögu söngfélagsins þegar nýr kór – hið eiginlega Söngfélagið Harpa var stofnað, ekki liggur heldur fyrir hvers vegna nýtt söngfélag tók til starfa upp úr Söngfélagi í Reykjavík en kosið var um tvö nöfn á kórinn, annars vegar Söngfélag iðnaðarmanna (sem þá voru í nokkrum meirihluta í félaginu) og hins vegar Söngfélagið Harpa en síðarnefnda nafnið hlaut kjörgengi. Við þessi tímamót var fyrsta ljósmynd af íslenskum kór tekin af Sigfúsi Eymundssyni en hann tók einnig aðra mynd síðar af kórnum.

Söngfélagið Harpa

Jónas Helgason var um þetta leyti orðinn mikils metinn söngkennari og söngmálafrömuður og árið 1877 varð hann Dómkirkjuorganisti, hann stjórnaði þó Söngfélaginu Hörpu áfram og það starfaði allt til 1893 og er iðulega sagt að félagið hafi starfað í liðlega þrjátíu ár eða frá 1862, og líklega með réttu að því leyti að þetta var allt sami kórinn. Kórinn hélt oft tónleika enda þóttu það stórir viðburðir þegar blásið var til söngskemmtana á þeim tímum þegar skemmtanalífið var öllu fábrotnara en síðar varð, kórinn t.d. hafði verið áberandi á hátíðahöldunum í tengslum við 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1874 og söng þá t.a.m. fyrir danska konunginn á Þingvöllum, en einnig söng kórinn á sjálfstæðum tónleikum í samkomuhúsinu Glasgow, Hótel Alexöndru, Hótel Íslandi, Góðtemplarahúsinu við Tjörnina og víðar, oftar en ekki að því er virðist við húsfylli – rétt er þó að geta að samkomuhúsin voru ekki ýkja stór og þannig munu einungis hafa komist um hundrað og fimmtíu manns fyrir í sal Hótel Alexöndru. Harpa var reyndar ekki eingöngu söngfélag heldur voru gefnar út nótnahefti og kennslubækur í söng í nafni þess.

Söngfélagið Harpa innihélt líklega yfirleitt á milli tuttugu og þrjátíu meðlimi, kórinn var karlakór í grunninn en árið 1884 höfðu konur gengið til liðs við kórinn og var hann þar með fyrsti blandaði kór landsins, ekki liggur þó fyrir hvort hann starfaði sem slíkur þar til yfir lauk 1893. Þess má geta að söngkonan Guðrún Waage söng einsöng með kórnum á stórum tónleikum á Hótel Íslandi en á þeim tónleikum léku einnig nokkrir hljóðfæraleikarar með kórnum, þar af lúðurþeytarar en nokkrir meðlimir kórsins stofnuðu einmitt fyrstu lúðrasveitina hérlendis, Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur undir handleiðslu Helga Helgasonar bróður Jónasar. Á þessum fyrstu árum kórahefðar á Íslandi tíðkaðist ekki að syngja á íslensku en á síðustu árum kórsins var það smám saman að breytast, bæði var að íslensk tónskáld voru að birtast hvert á fætur öðru með sönglög og svo að menn tóku smám saman að viðurkenna tilvist hinna íslensku þjóðlaga og endurútsetja þau fyrir kóra.

Söngfélagið Harpa söng sitt síðasta í febrúar 1893 þegar kórinn hélt tvenna tónleika í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina (Gúttó) en þar með lauk sögu hans, ótal nýir kórar voru um það leyti að spretta fram á sjónarsviðið enda hafði Harpa þá rutt nokkuð brautina fyrir hinni nýju kórahefð.