Söngfélagið Harpa [7] (1969-81)

Söngfélagið Harpa 1979

Söngfélagið Harpa var starfandi um árabil á Hofsósi og söng víða um land meðan það starfaði.

Fyrstu heimildir um söngfélagið Hörpu á Hofsósi eru frá því um vorið 1970 en hér er giskað á að það hafi verið stofnað haustið á undan, þá voru um þrjátíu manns í þessum blandaða kór en fólk úr þremur hreppum við austanverðan Skagafjörð stóð að stofnun hans.

Árni Ingimundarson var fyrsti stjórnandi kórsins og kom hann reglulega til Hofsóss og dvaldi þar um hríð meðan hann æfði kórinn en Árni kom frá Akureyri. Undir hans stjórn söng kórinn á tónleikum í heimabænum og á Akureyri en árið 1973 fór Harpa suður til Reykjavíkur í upptökur fyrir útvarpið og voru þær upptökur nokkuð spilaðar í dagskrá útvarpsins, þá hafði fjölgað nokkuð í kórnum en hann hélt í þessari sömu ferð nokkra tónleika á suðvesturhorninu. Söngfélagið Harpa söng stundum á Sæluviku Skagfirðinga en einnig hélt kórinn tónleika víða um norðanvert landið þegar líða tók á áratuginn, til að mynda hélt kórinn tónleika í Grímsey en þá hafði Ingimar Pálsson tekið við kórstjórninni. Árið 1979 fór Harpa í aðra söngferð um suðvesturhorn landsins undir stjórn Ingimars en eftir það fór minna fyrir söng hans, árið 1981 hafði Tékkinn Jiri Hlavacek leyst Ingimar af hólmi við söngstjórnina en ekki liggur fyrir hversu lengi hann stjórnaði söngfélaginu. Harpa virðist þó hafa verið starfandi til ársins 1983 eftir því sem best verið komist en þá stóð söngfélagið að sameiginlegu tónleikahaldi með karlakórnum Heimi í Skagafirði sem Hlavacek stjórnaði einmitt líka.

Ýmsir sungu einsöng með söngfélaginu Hörpu og hér má nefna þau Pálu Pálsdóttur, Þorvald G. Óskarsson, Kristján B. Snorrason söngvara hljómsveitarinnar Upplyftingar (sem upphaflega kom frá Hofsósi) og Ingu Rún Pálmadóttur en sú síðast talda var síðar þekkt sem gítarleikari Grýlnanna.