Söngfélög Framfarar (1912-85)

Söngfélag Framfarar

Hér er fjallað um nokkur söngfélag og kóra sem störfuðu í nafni stúkufélagsins Framfarar í Garði undir nafninu Söngfélög Framfarar en erfitt er að henda reiður nákvæmlega hvað fellur undir hvað í þessum efnum, stundum er jafnvel talað um Söngfélag Gerðahrepps. Stúkan Framför var stofnuð árið 1889 í Garði en fjölmörg slík stúkufélög voru stofnuð og starfrækt á þessum árum, tveimur árum síðar var stofnuð barnastúka, Siðsemd innan Framfarar og störfuðu nokkur söngfélög og kórar innan stúkanna beggja og mynda eins konar rætur alls söngstarfs innan Garðahrepps.

Það var líklega ekki fyrr en 1912 sem söngfélag var fyrst sett á laggirnar innan Framfarar, þar var um að ræða karlakór annars vegar (Söngfélagið Víkingar) og blandaðan kór hins vegar sem störfuðu samtímis, og samhliða þeim varð líklega einnig til annar blandaður kór innan stúkunnar sem innihélt einnig meðlimi utan stúkunnar. Kórar þessi komu nokkuð fram á þessum árum en þeir störfuðu fyrst undir stjórn Matthildar Finnsdóttur frá Kjörseyri, Matthildur stjórnaði ennþá söngfélagi í Garðinum árið 1929 og má gera fastlega ráð fyrir að um sama félagsskap sé að ræða. Ekki liggur fyrir hversu lengi slíkt söngstarf var innan Framfarar en um miðja öldina var starfandi karlakór undir nafninu Víkingur (eða Víkingar) í Garðinum sem óljóst er hvort var starfræktur innan stúkunnar.

Á sama tíma stjórnaði Matthildur einnig söngfélagi innan Siðsemdar (barnastúkunnar) en ekki liggur fyrir hversu lengi. Steinunn Steinsdóttir tók við hennar starfi og gegndi því til 1944, síðan Halldóra Halldórsdóttir og svo Auður Tryggvadóttir organisti sem hélt utan um söngstarfið allt líklega fram á níunda áratuginn. Innan Siðsemdar voru síðan kynjaskiptir kórar, annars vegar drengjakórinn Svanir og stúlknakórinn Liljur hins vegar.

Framför og Siðsemd voru starfandi allt fram undir aldalok.