Söngfjelagið úr Neðsta (1996-2001)

Söngfjelagið úr Neðsta

Sönghópur starfaði um fimm ára skeið um aldamótin 2000 á Ísafirði undir nafninu Söngfjelagið úr Neðsta.

Söngfjelagið úr Neðsta mun hafa verið stofnað í Neðstakaupstað á Ísafirði vorið 1996 í tengslum við sumarhátíð fyrir vestan en hópurinn hlaut reyndar ekki nafn fyrr en um ári síðar, um páskana 1997 þegar hann kom fram á dagskrá tengdri Skíðaviku Ísfirðinga.

Í upphafi munu meðlimir sönghópsins hafa verið níu talsins en fækkaði síðan niður í sjö, þau voru Elísabet Gunnarsdóttir, Páll Gunnar Loftsson, Ágústa Þórólfsdóttir, Einar Jónatansson, Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir, Jón Hallfreð Engilbertsson og Margrét Gunnarsdóttir en nöfn þeirra tveggja sem voru upphaflega með eru ekki kunn.

Söngfjelagið úr Neðsta söng töluvert opinberlega meðan hópurinn starfaði og til að mynda fór hann til Belgíu og Hollands í söngferðalag, þar fyrir utan kom hann mestmegnis fram á heimaslóðum fyrir vestan. Sönghópurinn lagði framan af áherslu á léttmeti en síðan söng hann einnig trúartengda og þyngri tónlist.

Söngfjelagið úr Neðsta starfaði til ársins 2001.